Lokað milli Mývatns og Egilsstaða vegna fastra ökutækja
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. apr 2025 16:25 • Uppfært 16. apr 2025 16:27
Hringveginum frá Egilsstöðum norður að Mývatni var lokað á fjórða tímanum í dag vegna fjölda ökutækja sem kominn var í vandræði. Mjög blint er á leiðinni.
Hjalti Bergmann Axelsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir að ekki sé enn ljóst hversu margir bílar hafi lent í vandræðum. Miðað við árstíma megi ætla að þeir séu 20-30 og í þeim tugir einstaklinga.
Hann segir að ákveðið hafi verið að loka vegunum á meðan Vegagerðin og björgunarsveitir nái að greiða úr vandanum og veðrið gangi yfir. „Það er lokað því það eru ökutæki í vanda. Vandræðin magnast fljótt þegar bílar stoppa.“
Að sögn Hjalta eru vandræðin helst í Heiðarendanum, þar sem farið er af Upphéraði ofan í Jökuldal og síðan uppi í Langadal nærri Möðrudal þar sem vegurinn er í um 600 metra hæð. Báðir staðir eru þekktir fyrir að þar getur orðið afskaplega blint í ákveðnum áttum.
Heiðarendinn var merktur ófær um klukkan half tvö en restin af leiðinni klukkan 15:20. Um leið var Vopnafjarðarheiði og leiðinni út Jökulsárhlíð lokað. Þungfært er yfir Vatnsskarð til Borgarfjarðar.
Mynd úr safni: Unnar Erlingsson