Lokað yfir Öxi og til Mjóafjarðar vegna vatnavaxta
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. sep 2025 11:47 • Uppfært 09. sep 2025 11:50
Veginum yfir Öxi var lokað í gærkvöldi eftir að vatn flæddi yfir veginn. Leiðin til Mjóafjarðar lokaðist í morgun eftir að vegurinn fór í sundur og einnig hefur verið lokað inn í Snæfell vegna vatnavaxta.
Lokað var yfir Öxi upp úr klukkan níu í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni flæðir yfir þar sem ræsi hefur ekki undan. Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru á vettvang í morgun til að kanna aðstæður. Axarvegur er einnig afar holóttur.
Vegurinn til Mjóafjarðar fór í sundur í Slenjudal. Verktaki er á leið á svæðið með tæki þannig að vonast er til að vegurinn opnist eftir hádegið. Í Álftafirði er verið að verja veginn við Grjótá en hún er komin upp úr farvegi sínum og byrjuð að éta sig inn í veginn.
Vegurinn inn í Snæfell er lokaður vegna mikilla vatnavaxta og sömu sögu er að segja um síðasta spottann inn í Kverkfjöll.
Ár og lækir uxu víða myndarlega í gærkvöldi eftir mikla rigningu seinni partinn. Brúnn litur litaði Norðfjörð í morgun eftir framburð vatnsfalla. Þar mældist 40 mm úrkoma frá klukkan 18 fram til miðnættis, þar af 12,5 mm frá klukkan 21-22 í gærkvöldi.
Áfram rigndi eftir miðnættið en þegar leið á morguninn dró úr úrkomunni. Samkvæmt spám á að stytta upp á Austfjörðum þegar líður á daginn en á morgun er von á öðru hraustlegu úrkomubelti.
Staðan á leiðinni inn að Snæfelli í morgun. Mynd: Vatnajökulsþjóðgarður