Skip to main content

Lokið við annan varnargarðinn af þremur á Seyðisfirði í dag – Myndir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. júl 2025 10:30Uppfært 25. júl 2025 10:32

Héraðsverk lýkur vinnu við Öldugarð, annan varnargarðinn af þremur í norðanverðum Seyðisfirði í dag. Verkstjóri segir vinnu við garðinn hafa gengið afar vel. Erfiðasti hluti verksins er enn eftir.


Starfsmenn Héraðsverks binda í dag síðustu stálgrindurnar í Öldugarði, sem er ystur eða nyrstur af varnargörðunum þremur sem eru að rísa undir Bjólfi. Byrjað var á garðinum 10. júlí árið 2023.

Garðurinn byrjar við áhaldahúsið og rís þar strax bratt upp. Hann er tæplega 500 metra langur og 17 metra hár og nær upp í 75 metra hæð yfir sjó. Efsta lagið er 5 metra breitt en þau fyrstu voru allt að 13 metrar.

„Þetta hefur gengið mjög vel. Garðurinn er hár, sem gerir hann krefjandi en við höfum leyst það. Við höfum unga og góða drengi sem eru liprir, duglegir og vandvirkir. Það hefur verið mjög gaman að takast á við hann,“ segir Benedikt Ólason, verkstjóri Héraðsverks.

Í fyrra var lokið við fyrsta garðinn, Fjarðargarð,sem er minni þvergarður á milli aðalgarðanna tveggja.

Vinna hafin á hæsta punkti við Bakkagarð


Eftir er Bakkagarður sem verður alls 557 metra langur og 11 metrar á hæð. Hann er um það bil hálfnaður í lengd en erfiðasta vinnan við hann er rétt að byrja. „Hann fer svo langt upp í fjall og endar í 144 metra hæð yfir sjó,“ segir Benedikt.

Fyrir viku var byrjað að vinna við efsta hluta garðsins þegar farið var upp með bor og beltagröfu á efsta pallinn. Þar er verið að sprengja frá klett og er stefnt að því þeirri vinnu verði lokið fyrir verslunarmannahelgi.

Bakkagarðurinn verður líka öðruvísi gerður en hinir. „Þegar hann kemur upp í 70-80 metra hæð yfir sjó hættir skriðufyllingin. Þá verður stálþil báðum megin. Hann þarf að vera léttari vegna stöðugleikans í fjallinu,“ segir Benedikt.

Áætlað er að vinna við varnargarðana klárist næsta sumar. Verkið hefur gengið vel til þessa, ekki síst þar sem veðurfar bæði að sumri og vetri hefur verið hagstætt. „Hér kom 15. maí þann 1. febrúar. Síðan hefur ekkert verið fyrir okkur í jarðvinnunni. Stærsta ástæðan fyrir hversu vel gengur er að við erum með vana menn og duglegt fólk. Það mæðir mest á strákunum sem eru úti að vinna í stundum leiðinlegu veðri, en þeir klæða sig og halda áfram.“

Sfk Varnargardar Juli25 0002 Web
Sfk Varnargardar Juli25 0005 Web
Sfk Varnargardar Juli25 0006 Web
Sfk Varnargardar Juli25 0019 Web
Sfk Varnargardar Juli25 0026 Web