Loks komin keyrsla á akstursíþróttasvæði í Eyvindarárdal
Það sem virtist orðið klappað og klárt síðla árs 2021 að akstursíþróttaklúbburinn START á Egilsstöðum fengi leigt svæði í Eyvindarárdal undir glænýtt akstursíþróttasvæði fékk snöggt stopp þegar þjóðlendukröfur Óbyggðanefndar komu fram fáeinum mánuðum síðar árið 2022. Nú loks er komin skriður á málið að nýju.
Akstursíþróttaklúbburinn hefur lengi vel haft augastað á hentugu svæði í dalnum undir akstursíþróttasvæði og þar bæði fyrir vélknúin ökutæki sem og reiðhjól. Staðsetningin talin fyrirtak sökum þess að þar er engin byggð og því engin truflun af akstursíþróttum en ekki síður er þetta þokkalega miðsvæðis milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar svo svæðið gæti nýst mun fleirum en einungis Héraðsmönnum.
Þjóðlendukröfurnar settu strik í reikninginn að sögn Óðins Gunnars Óðinssonar, skrifstofustjóra Múlaþings, en sökum endaloka þeirra mála allra austanlands á síðasta ári gerir ríkið, sem eigandi landsins, kröfu um að allur rekstur innan þess svæðis sé formlega auglýstur.
Það hefur nú verið gert af hálfu Múlaþings en sjálfur segist Óðinn ekki eiga von á tilboðum í rekstur akstursíþróttasvæðisins frá öðrum en START-klúbbnum sem beðið hefur lengi eftir að hefjast handa við uppbyggingu og koma starfsemi af stað helst strax í sumar.
Um er að ræða 150 hektara svæði sem hannað er sérstaklega undir aksturs- og reiðhjólabrautir undir Skagafellinu í dalnum. Áhugasamir rekstraraðilar hafa til 23. þessa mánaðar til að skila inn umsóknum.
Töluverður fjöldi fólks stundar akstursíþróttir af einu eða öðru taginu austanlands og margir beðið lengi eftir heppilegu, skipulögðu svæði undir það sportið. Mynd START