Lottóvinningur: Borgarfjörður í sviðsljósinu í virtu ferðatímariti

arngrimur_vidar_wanderlust.jpg
Borgarfjörður og gönguferðir um svæðið eru í sviðsljósinu í nýjasta hefti breska ferðatímaritsins Wanderlust. Frumkvöðull í ferðamennsku á svæðinu segir umfjöllunina happafeng og viðurkenningu fyrir vinnuna á svæðinu.

„Blaðamaðurinn kom til okkar í byrjun september, dvaldi í þrjá daga og fór í gönguferðir,“ segir Arngrímur Viðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar Álfheima.

Wanderlust hefur komið út í tuttugu ár en í dag eru áskrifendur í 112 löndum og lesendur yfir 100.000 talsins. Í nýjasta heftinu er níu síðna umfjöllun um Borgarfjörð og ferðaþjónustu þar. 

Blaðamaðurinn lýsir þar upplifun sinni af svæðinu, meðal annars hvernig sé að vera standa berfættur úti í blautri morgundögginni og gönguferð um Stórurð. Talað er um hið töfrandi land og að fylgt sé í fótspor álfanna á Austfjörðum þar sem fáir séu á ferli.
 
„Sumt fólk athugar stöðuna á hlutabréfamarkaðnum. Við gáum til veðurs og ákveðum svo hvað við ætlum að gera,“ er haft eftir Viðari í greininni.

Í samtali við Austurfrétt segir hann að umfjöllun sem þessi hafi mikið kynningargildi fyrir Borgarfjörð. „Það að útbreiddasta göngutímarit á Bretlandi fjalli um okkur er mikil viðurkenning á því sem við erum að gera. Í raun er þetta lottóvinningur því kynningarmátturinn er gífurlegur.

Við getum vísað á blaðið og bent á að það hafi verið umfjöllun um okkur. Hún hefur þegar skilað viðskiptum því sölumenn frá breskum ferðaskrifstofum sem selja ferðir til Íslands hafa haft samband við okkur eftir að hún birtist.“

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðamennsku á Borgarfirði undanfarin ár. Einkaaðilar hafa fjárfest þar fyrir 200 milljónir króna á sex árum, aðallega í gistingu og veitingaaðstöðu.

Þar eru menn tilbúnir fyrir ferðamannatímabilið og benda á að fyrstu gestirnir séu þegar komnir. „Lundinn mætti í fyrradag. Hann er sestur upp í Hólminum. Það segir okkur að ferðamannatíminn sé að byrja.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.