Skip to main content

Lundavarp í Hafnarhólma með besta móti

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. ágú 2023 11:50Uppfært 16. ágú 2023 11:51

Varp lundans í Hafnarhólma á Borgarfirði eystra virðist hafa tekist með besta móti í ár. Ágætlega virðist einnig hafa gengið í Papey.


Þetta eru fyrstu niðurstöður sérfræðinga hjá Náttúrustofu Suðurlands sem sjá um að vakta lundastofninn.

Áætlað hefur verið að í Hafnarhólmanum séu um 10.000 varpholur. Áætlað er að 93% þeirra hafi verið nýttar í sumar, varpágangur eða fleygir ungar á hvert egg var 79% og viðkoma, fjöldi unga á holu, 73%. „Það er með hæsta móti,“ segir dr. Erpur Snær Hansen, sem stýrir rannsóknunum.

Í Papey eru taldar 177.000 holur. Ábúðin var 69%, varpágangurinn 89% og viðkoman 61% sem telst í góðu meðallagi.

Lundinn verpir aðeins einu eggi á hverju ári fyrri hluta sumars. Ungarnir fara á haf út rúmlega 40 daga gamlir og eru þar næstu 3-5 árin á meðan þeir verða kynþroska og finna sér maka áður en þeir koma aftur upp á land.

Hafnarhólminn á Borgarfirði er meðal þeirra staða þar sem auðveldast er að fylgjast með lundanum og sækja því þúsundir ferðamanna þangað hvert sumar. Lundinn er núna farinn á vetrarstöðvarnar.