Skip to main content

Lundinn áfram í bráðri útrýmingarhættu en staðan tiltölulega góð á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. júl 2025 16:36Uppfært 04. júl 2025 16:39

Bæði fræðingar og heimafólk á Borgarfirði eystra eru ekki í vafa um að lundinn heldur áfram að pluma sig þokkalega vel í þeim firði og þetta sumarið engin undantekning þar á.

Náttúrustofa Íslands birti fyrir fáeinum dögum sinn fyrsta válista fugla síðan 2018 og enn er hinn fallegi lundi skráður í bráðri útrýmingarhættu í landinu. Staðan vissulega verið slæm á stöku stöðum síðustu árin og þar ekki síst í Vestmannaeyjum en á Austurlandi virðist stofninn bærilega góður og engin teljandi afföll verið á þeim slóðum um þriggja ára skeið.

Það staðfestir Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, sem fer með vöktun lundastofnsins í landinu öllu. Þó ekki sé búið að taka stöðuna á Austurlandi öllu þetta sumarið voru fræðingar þó búnir að gera sér ferð í Borgarfjörðinn til rannsókna um miðjan júní.

„Við vorum reyndar á ferðinni dálítið seint í júní en það var komið töluvert af pysjum í Hafnarhólma, flestir nýklakktir og allt leit almennt vel út eins og reyndin hefur verið síðustu árin í þessum ágæta firði. Auðvitað er þetta lítið svæði þannig eða um 7.700 holur en heimafólk segir okkur að stórt varp sé komið upp í björgunum innan við kílómetra frá hólmanum. Þeir virðast vera að nema nýtt svæði þarna landmegin og eru kannski að leita sér meira næðis með þeim hætti.“ 

Undir þetta tekur Helga Erlendsdóttir, heimamaður og æðabóndi með meiru, en hún fylgist grannt með hlutunum hvert sumar. 

„Ég tek undir það að það hefur verið nokkuð góð viðkoma lundans þetta sumarið. Það eina er að þeir byrjuðu óvenju snemma að verpa því sjálf varð ég vör við egg strax þann 28. apríl. Svo kom hlýindakafli í byrjun maí svo ég held að það hafi gengið vel þrátt fyrir allt.“

Þó Hafnarhólmi sé landsþekktur fyrir hve margir lundar koma sér þar fyrir árlega og láta sér hvergi bregða við mannfólkið í kring eru mun fleiri staðir í Borgarfirði eystri þar sem þeir gera sér samastað á sumrin.