Skip to main content

Lundinn hvergi gæfari gagnvart mannfólkinu en í Hafnarhólmanum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. jún 2023 09:24Uppfært 02. jún 2023 10:24

Hvergi annars staðar á landinu kemst mannfólkið í jafn mikla nálægð við villta lunda en í Hafnarhólmanum á Borgarfirði eystra að sögn doktors í líffræði. Hann segir stöðu lundans þar í góðu meðallagi.

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands og doktor í líffræði, er manna fróðastur um lundastofninn á Íslandi en hann hefur rannsakað hæðir og lægðir þess stofns hér um áratugaskeið. Lengi hefur verið vitað að lundinn, sem margir segja einkennisfugl Íslands miðað við vörufjölda merktum honum í ferðamannaverslunum landsins, á mjög undir högg að sækja. Það á sannarlega við þetta vorið og sumarið sunnanlands þar sem fjöldinn er bæði óvenju lítill og varptími heilum tveimur vikum síðar en raunin hefur verið undanfarin ár. Það segir Erpur vera afleiðingu af blautu og köldu veðri en staðan sé betri fyrir norðan og austan.

„Stofninn í Hafnarhólmanum fyrir austan er í svona góðu meðallagi myndi ég segja. Við höfum verið að fara í Hafnarhólmann tvisvar til þrisvar á ári síðan 2010 og þar hefur einmitt verið í gangi sérstakt verkefni síðustu þrjú árin. Þá merktum við 52 fugla með sérstökum gulum merkjum og fórum fram á að ferðamenn á staðnum sem verða þessara fugla varir tækju mynd af þeim og kæmu til okkar. Fyrstu árin tókst þetta vel en núna höfum við verið að fá mun fleiri en venjulega og ég held við séum búnir að fá einhverjar fimmtán til tuttugu myndir í viðbót við þá fugla sem við höfum séð sjálf. Þetta eru mælingar á líftölu fuglanna því það eru bara varpfuglar í ábúð með þessi merki og ég á von á að á næsta ári verði komnar nægar upplýsingar til að öðlast vitneskju um líftölu þeirra í Hafnarhólma. En almennt myndi ség segja að stofninn bæði á Norðurlandinu og Austurlandi sé í góðu meðallagi og hafi verið það um tíu ára skeið eða svo. Það er ljóst að fuglarnir komast í nokkuð gott æti á þessum slóðum og þá helst stofninn góður.“

Erpur segir eitt mjög sérstakt við lundann í hólmanum á Borgarfirði en það sé hve fuglarnir kippi sér lítið upp við ágang ferðamanna. Hvergi annars staðar sé mögulegt að komast svo nálægt fuglunum eins og þar. Hann kann þó enga sérstaka skýringu á því aðra en að lundarnir séu beinlínis orðnir vanir umferð fólks við varpstöðvarnar. Ekkert bendi til að þetta sé að trufla þá neitt sérstaklega.