LungA snýr aftur með stæl í sumar
„Það eru margir búnir að bíða eftir þessu og nú þegar búið er að endurhugsa aðeins hugmyndina að baki LungA erum við að vona að hátíðin verði enn stærri og vinsælli en áður var,“ segir Þóra Flygenring, fjölmiðlafulltrúi LungA á Seyðisfirði, en hátíðin verður aftur haldin í sumar með sama hætti og var fyrir Covid.
Vart þarf að kynna hátíðina LungA fyrir Austfirðingum enda ein helsta og langlífasta menningarhátíð fjórðungsins og hefur jafnan dregið að sér fjölda fólks og þar bæði Íslendinga og útlendinga. Hátíðinni 2020 var alfarið frestað og í fyrra fór hún fram með mun minna sniði en vonir stóðu til. Úr því skal bæta nú.
Að þessu sinni verður tónlistarfólki gert hærra undir höfði en áður hefur verið og allnokkrar kanónur í tónlistarheiminum stíga á stokk á Seyðisfirði þegar hátíðin verður haldin dagana 12. til 17. júlí. Nægir að nefna til sögunnar hina geysivinsælu söngkonu Bríeti og hljómsveitirnar Gusgusar og Russian Girls svo aðeins fáir séu nefndir. Þóra segir enn fleiri tónlistaratriði í pípunum sem tilkynnt verðum um síðar.
Helsta breytingin á fyrirkomulagi hátíðarinnar þetta árið er að í stað þess að hafa eitt aðalsvið þar sem tónlistarfólkið kemur allt fram verður nú um nokkur smærri svið að ræða sem dreift verður um bæinn.
„Þannig geta gestir gengið um bæinn í rólegheitum og upplifað eitthvað nýtt í hverju horni í stað þess að allir safnist saman á einum stað,“ segir Þóra. „Við ætlum líka að reyna að láta tónlistina á hverjum stað kallast á við þá fögru náttúru sem finnst alls staðar í og við bæinn. Þetta verður gert með stæl þetta árið.“
Mynd: LungA hefur fest sig rækilega í sessi sem ein veigamesta hátíðin austanlands og útlit fyrir að hátíðin þetta árið verði sú stærsta hingað til. Mynd GG