Lúsmý líklega farið að gera vart við sig austanlands
Þó ekki verði fullyrt hundrað prósent eru sterkar líkur á að með afar hlýjum maímánuði það sem af er hafi fleiri en mannfólkið vaknað til lífs og eytt tíma utandyra en annars hefði verið raunin. Hin miður vinsæli landnemi lúsmý þar á meðal en þess leiða fjanda varð fyrst vart austanlands fyrir þremur árum síðan.
Víðast hvar á Austurlandi hefur maímánuður verið óvenju hlýr og þegar þetta er skrifað mælist 20 stigi hiti á Egilsstaðaflugvelli með heiðskýran himinn og glampandi sól. Þó ekki sé einstakt að slík hlýindi mælist í mánuðinum er það sannarlega óvenjulegt og það sem meira er að veðurspár gera ráð fyrir svipuðum hlýindum langt fram í næstu viku.
Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrustofu Austurlands hafa engar tilkynningar borist stofnuninni um lúsmý á Austurlandi hingað til en bóndi einn í Hróarstungu telur yfirgnæfandi líkur á að mýfargan sem birtist skyndilega um miðjan dag í gær sé lúsmý. Þær líka gert usla hingað til í dag samkvæmt upplýsingum frá bóndanum sem ekki vill láta nafn síns getið. Segist hann mætavel þekkja mun á hefðbundnu mýi og öðrum tegundum og lítill vafi leiki á að lúsmý sé komið á stjá í sveitinni. Það sanni til dæmis útbrot og bólur með ægilegum kláða eftir stungur síðdegis í gær sem ekki er venjan þegar um hefðbundið mý sé að ræða.
Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands, segir engar tilkynningar hafa borist um lúsmý það sem af er árs en óvenjuleg hlýindin undanfarið séu vissulega kjöraðstæður fyrir varginn atarna.
„Það var auðvitað búið að staðfesta fyrir nokkrum árum að lúsmýið væri komið austur á land en við höfum ekki fregnað neitt þeim tengt hingað til á árinu. Þá er vitaskuld eðlilegt að þær fari á kreik ef aðstæður eru með góðu móti sem hefur verið raunin undanfarið. En það er sannarlega við því að búast að þær geri vart við sig.“