Lúsmý staðfest á Austurlandi

Staðfest er að lúsmý hafi fundist í nágrenni Egilsstaða. Þar með heldur útbreiðsla þeirra áfram en flugurnar, sem valdið geta talsverðum ónotum með bitum sínum, fundust í fyrsta sinn á Íslandi fyrir tæpum tíu árum.

„Við urðum vör við flugur inni hjá okkur, einkum á kvöldin. Við héldum fyrst að þetta væri bitmý því við fundum fyrir biti.

Ég sendi fyrst mynd á skordýrafræðing sem útilokaði að þetta væri bitmý en leiddi að því líkum að þetta væri lúsmý. Við sendum þá sýni á sérfræðing hjá Náttúrufræðistofnun sem staðfest að þetta væri lúsmý,“ segir Elínborg S. Pálsdóttir, líffræðingur sem býr á Þrándarstöðum í Eiðaþinghá, skammt utan við Egilsstaði.

Eftir því sem næst verður komist er þetta eina staðfesta tilfellið á Austurlandi. Vísir greindi frá tilfelli á Jökuldal fyrir helgi en það mun hafa verið rangt staðsett. Elínborg segist hins vegar hafa heyrt af fólki sem hafi orðið fyrir biti á næstu bæjum í Eiðaþinghá, sem og á Egilsstöðum og í Fellabæ. Líklegt er að lúsmý sé þar á ferðinni þótt það sé ekki staðfest.

Lúsmý var fyrst staðfest hérlendis árið 2015. Skordýrafræðingar hafa síðan sagt að það myndi dreifa úr sér um landið. Elínborg telur að líklega hafi mýið verið komið austur í fyrra. „Ég man eftir að hafa séð þetta litlar flugur hér í fyrra, bara í minna magni. Ég held þessar séu þær sömu. Ég fékk bit þá.“

Hún segir helst hafa komið sér á óvart hversu stórar flugurnar séu, sú sem er á meðfylgjandi mynd er 2 millimetrar. Eins hafi hún fundið nokkuð vel fyrir bitinu en lúsmýið er frekar veikburða og stingur þar af leiðandi ekki í gegnum föt.

Hvernig má verjast lúsmýi?


Lúsmý verpir alla jafna í vatni og er á ferðinni frá júní fram í ágúst. Lúsmý á sér fjölda undirtegunda og enn sem komið er sú sem lifir her takmarkað rannsökuð.

Lúsmýið er á ferðinni í logni og skugga. Það getur því ráðist á fólk í skjóli í görðum sínum, á ferðinni í skóglendi eða í svefni. Sá bitni verður þá ekki var við neitt fyrr en óþægindi á borð við hlaða og útbrot koma fram að morgni. Maðurinn þróar með sér ónæmi gagnvart bitinu með tíð og tíma, en áður en að því geta viðbrögð líkamans verið hastarleg,

Reyna má að verjast lúsmýinu með því að halda lofti í herbergjum hreyfingu, setja net fyrir glugga eða loka þeim, klæðast fötum sem hylja útlimi eða spreyja efnum sem fæla frá skordýr á húð, föt og rúmföt. Til að slá á einkenni bits má bera kælikrem eða smyrsl á útbrot eða taka inn ofnæmislyf. Verði viðbrögð mjög harkaleg, vara lengi eða sýking í sári þarf að hafa samband við heilsugæslu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.