Lýðheilsuvísar sýna versnandi andlega heilsu Austfirðinga
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. mar 2025 17:19 • Uppfært 26. mar 2025 17:22
Andlegri líðan Austfirðinga hefur hrakað samkvæmt mælingum embættis landlæknis en lýðheilsuvísar ársins 2023 voru birtir nýverið. Þótt ýmislegt í tölunum veki upp áhyggjur virðist hamingjan samt sem áður á uppleið.
Vísarnir eru af margvíslegum toga og ná til samfélagslegra þátta, lifnaðarhátta og almennri líðan, auk gnótt heilsufarsupplýsinga í hverju og einu sveitarfélagi og landshluta Íslands. Í velflestum flokkum sem heilbrigðisvísarnir taka til er miðað við tiltekin gögn á hverja þúsund íbúa í hverjum landshluta.
Það er í því samhengi sem almennum hjúkrunarrýmum fækkar töluvert samkvæmt gögnum Landlæknis. Árið 2023 segja gögnin að 67,2 hjúkrunarrými hafi verið á hverja þúsund íbúa en glöggt má sjá að þeim hefur fækkað öll árin sem þessi tiltekna breyta hefur verið mæld. Til samanburðar var fjöldi almennra hjúkrunarrýma í fjórðungum 73,2 fyrir aðeins fjórum árum 2019.
Geðheilsu þarf að bæta
Austanlands eru geðheilbrigðismál sannarlega mikilvægt mál og það ekki síður hjá fullorðnum sem og þeim sem yngri eru. Heilsuvísar Landlæknis varpa frekara ljósi á málið því árið 2023 töldu 38,2% fullorðinna andlega heilsu sína vera sæmilega eða lélega. Það er nokkuð mikil aukning á skömmum tíma því árið 2021 nam fjöldinn sem svaraði á sama hátt 27,5%.
Annar vísir á andlega verri líðan Austfirðinga mælist í heimsóknum á heilsugæslur vegna geð- eða atferlisraskana en fjöldinn sem það gerir aldrei mælst meiri. Árið 2023 sóttu 27,4 af hverjum 100 íbúum þjónustu vegna þessa samanborið við 23,7 árið áður.
Aldrei meira stress
Á þeim árum sem embætti Landlæknis hefur tekið saman tölur um streitu og stress fullorðinna hafa þeir aldrei verið fleiri sem þjást af slíku frá árinu 2016. Þá sögðust 22% fullorðinna glíma við streitu í daglegu lífi en hlutfallið í fyrra var komið í 26%.
Líkamlegir þættir
Það hefur lengi verið ljóst og sannað að andleg líðan hefur bein áhrif á líkamlega þætti. Ósagt skal hvort það er raunin varðandi notkun blóðfitulækkandi lyfja á Austurlandi en slík lyf eru gefin sjúklingum með hjarta- eða æðasjúkdóma. Á síðasta ári voru 119,6 skilgreindir dagskammtar fyrir hverja þúsund íbúa gefnir austanlands og hröð aukning er þar frá árinu 2016, þegar fjöldi slíkra skammta töldust 90,6. Að sama skapi hefur notkun háþrýstilækkandi lyfja í fjórðungum aldrei mælst meiri en árið 2023. Einir 299,5 skilgreindir dagskammtar gefnir en töldust áður 271,3.
Kynsjúkdómar fleiri
Staðan fer líka versnandi í mörgum öðrum flokkum hvað Austurland varðar. Eitt dæmið varðar tilfelli kynsjúkdómsins klamydíu. Þar mælist Austurland enn undir landsmeðaltali þeirra sem þann sjúkdóm fá en stökkið er þó mikið á skömmum tíma. Árið 2017 leituðu 313,6 af hverjum hundrað þúsund einstaklingum sér hjálpar þess vegna austur á landi en á síðasta ári var fjöldinn kominn í 516,0.
Ekki allt miður
Það eru þó líka allnokkrar vísbendingar um jákvæða þróun í tölfræðinni. Árið 2023 sögðust 56% vera hamingjusöm samanborið við 52% árið áður. Dregið hefur heldur úr áhættudrykkju fullorðinna, eða úr 20,4% árið 2022 í 18,6% fyrir ári. Sömuleiðis fækkar þeim hægt en bítandi sem neyta gosdrykkja af einhverju tagi reglulega en þeim hefur fækkað allar götur frá árinu 2020.
Þeim fjölgar líka í hópi fullorðinna sem stunda einhverja hreyfingu samkvæmt ráðleggingum en það sögðust 67% hafa gert á síðasta ári.
Frá málþingi um geðrækt á Austurlandi. Mynd: Albert
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.