Lýðveldisfáninn loks kominn austur

Skrifstofu Fljótsdalshrepps barst loks í dag fánar sem prentaðir voru sérstaklega í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins Íslands sem bar upp á 17. júní síðastliðinn.

„Það er ánægjulegt að hafa fengið fánann loks í hendurnar. Vonandi getum við látið hann blakta hér í allt sumar,“ segir Helgi Gíslason sveitarstjóri Fljótsdalshrepps. Hann dró fánann strax að húni.

Fánar með merki lýðveldisársins voru dregnir að hún á einhverjum stöðum á landinu sem hluti af hátíðahöldum 17. júní. Fáir fánar munu þó hafa verið komnir austur í tíma.

Fáni Fljótsdælinga var póstlagður í umslagi merktu frá forsætisráðuneytinu miðvikudaginn 20. júní síðastliðinn, þremur dögum eftir hátíðisdaginn sjálfan. Sex dagar hafa síðan bæst við, en póstur er aðeins borinn út í sveitinni á miðvikudögum og föstudögum. „Þetta sýnir hvers konar þjónustu við á landsbyggðinni búum við á svo mörgum sviðum,“ bætir Helgi við.

Á ýmsu hefur gengið við lýðveldishátíðina. Hvað mesta athygli vakti þegar endurprenta þurfi bók um sögu fjallkonunnar eftir forsætisráðherraskipti þar sem Katrín Jakobsdóttir hafði skrifað fyrri inngangsorð hennar.

Það að fáninn hafi borist þetta seint mun ekki hafa haft veruleg áhrif á hátíðahöld Fljótsdælinga í kringum 17. júní sem hafa alla jafna verið lágstemmd.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.