Skip to main content

Lyfja telur fullreynt að halda úti verslun á Eskifirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. maí 2025 14:21Uppfært 06. maí 2025 14:45

Lyfja hefur ákveðið að loka útibúi sínu á Eskifirði um næstu mánaðamót. Forstöðumaður verslanasviðs Lyfju segir að útibúið hafi ekki staðið undir sér í nokkur ár og nú sé fullreynt.


„Við höfum verið með þjónustu á Eskifirði til margra ára og höfum nú tekið vandlega íhugaða ákvörðun og ekki af neinni léttúð. Læknisþjónusta á Eskifirði hefur minnkað mikið og hún er forsenda lyfjaútibús.

Við hörmum þessa ákvörðun en þessi rekstur er fullreyndur,“ segir Þórbergur Egilsson, forstöðumaður verslanasviðs.

Útibúið á Eskifirði hefur til þessa verið opið 12-16 alla virka daga. Í Neskaupstað er apótek opið virka daga 10-18 og í útibúinu á Reyðarfirði er opið 11-18.. „Við erum með öfluga starfsemi á þessum stöðum og leggjum okkur áfram fram um að þjónusta samfélagið í Fjarðabyggð, sem okkur þykir mjög vænt um, eins vel og okkur er unnt,“ segir Þórbergur.

Tveir starfsmenn hafa verið á Eskifirði. Þeim býðst báðum vinna í útibúinu á Reyðarfirði og verða því engar uppsagnir á starfsfólki.

Þórbergur segir enn fremur til skoðunar hvort Lyfja muni gera sérstakar ráðstafanir fyrir Eskfirðinga sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að sækja þjónustuna annað. „Við höfum skilning á þörfum mismunandi hópa og munum leggja okkur fram um að koma til móts við fólk og þeirra persónulegu þarfir“.