Skip to main content

Lykilatriði að þvo hendur með sápu til að komast hjá nóróveirunni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. júl 2023 17:14Uppfært 04. júl 2023 17:16

Smit af völdum nóróveiru berst nær alltaf manna á milli, frekar en að fólk sýkist af matvælum. Ekki dugar að nota spritt gegn veirunni heldur er handþvottur með sápu lykilatriði.


Talið er að hópur ferðafólks sem dvaldist á Hótel Austur á Reyðarfirði í síðustu viku hafi borið með sér nóróveiru og smitað þar bæði aðra gesti og starfsfólk. Hópur kvenna úr Skagafirði veiktist heiftarlega eftir heimkomu og lést ein á Sjúkrahúsinu á Akureyri um síðustu helgi. Fleiri lögðust inn á sjúkrahús.

Kamilla S. Jósefsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnasviði embættis landlæknis, segir nóróveiruna algenga orsök hópsýkinga. Þær eru skráningarskyldar sem þýðir að embættið fylgist með fjölda greinina og skráningum í sjúkraskrá en sjaldnast persónugreinanlegar upplýsingar.

Þegar upp komi hópsýkingar sé unnið með umdæmislæknum sóttvarna og heilbrigðiseftirliti til að reyna að finna uppruna sýkingarinnar og stöðva útbreiðslu. Yfirleitt smitast veiran á milli fólks en hún getur einnig mengað matvæli, svo sem skelfisk eða tilbúna rétti.

Helstu einkenni sýkingar eru uppköst og niðurgangur ásamt hita og slappleika. „Oftast er hún orsök tveggja til þriggja ömurlegra sólarhringa en svo jafna langflestir sig hratt, en ung börn og eldri einstaklingar geta ofþornað hratt vegna þessarar sýkingar,“ segir Kamilla.

Til að draga úr smithættu er lykilatriði að þvo hendur með sápu. Ekki dugar að nota spritt. Þar sem smit kemur upp, svo sem á fjölförnum stöðum, í matvælaframleiðslu eða á heimili getur sótthreinsun snertiflata með til dæmis klór hjálpað. „Það er erfitt að koma í veg fyrir að allir á heimilinu smitist,“ segir Kamilla.

Fólk sem vinnur með matvæli eða innan um viðkvæma einstaklinga, svo sem á heilbrigðisstofnunum, er ráðlagt að halda sig í heima þar til að minnsta kosti tveir sólarhringar eru liðnir frá síðustu einkennum sýkingarinnar.