Lýsa þungum áhyggjum að eldisafli verði undanskilinn aflagjaldi
Samtök sjávarútvegssveitarfélaga lýsa þungum áhyggjum af nýlegum dómi Héraðsdóms Vestfjarða þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að greiða aflagjöld af fiski úr kvíum eins og öllu öðru sjávarfangi.
Samkvæmt dóm þessum, sem féll fyrr í þessum mánuði, skal einungis túlka sjávarafurðir það sem aflað sé með fiskveiðum en ekki eldisfisks sem sóttur er í kvíar. Óheimilt er því að innheimta aflagjöld af lönduðum eldisfiski.
Vakti niðurstaðan mikil viðbrögð hjá samtökum sjávarsveitarfélaga, sem í eiga sæti auk annarra Vopnafjörður, Múlaþing og Fjarðabyggð, auk fleiri aðila eins og Hafnarsambands Íslands enda aflagjöld drjúgur tekjustofn marga sveitarfélaga og hrein og bein undirstaða reksturs margra hafna á landsbyggðinni.
Eyþór Stefánsson varpaði fram þeirri spurningu á síðasta sveitarstjórnarfundi Múlaþings hvað dómurinn gæti þýtt fyrir sveitarfélagið og vakti meðal annars máls á að aflagjöld hér fyrir austan væri hærri en á Vestfjörðum auk þess sem spurningar vöknuðu um hvort dómurinn gilti þá hugsanlega aftur í tímann með tilheyrandi endurgreiðslum til fiskeldisfyrirtækja. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, sem á sæti í stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sagði brýnt að við þessu þyrfti að bregðast.
„Þetta er afar sérstök niðurstaða að afli sem kemur úr sjó, en kemur úr kvíum, sé ekki afli sem eigi að bera aflagjöld. Ég geri ráð fyrir að í framhaldinu munum við [hjá Múlaþingi] álykta eitthvað gagnvart þessu því að þetta er að mínu viti algjörlega út í hött.“
Bókun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga tekur af öll tvímæli um hvaða afleiðingar þessi dómur getur haft: „,“Það er ljóst að standi þessi dómur er einni stoð kippt undan í uppbyggingu hafna, til þjónustu við notendur þeirra, og þar með sveitarfélögunum sem þær byggja og reka. Sjókvíaeldi er vaxandi atvinnugrein víða um land og mikilvægt í því rekstrarumhverfi að til staðar séu öflugar hafnir til að þjónusta það á ýmsa vegu, s.s. Með mengunarvarnarbúnaði og öðru viðbragði. Til að það sé hægt þarf að skýra gjaldaheimildir í lögum til að standa undir uppbyggingu þeirra og rekstri. Því skora Samtök sjávarútvegssveitarfélaga á innviðaráðherra að fara þegar í endurbætur á þeim lögum sem að hafnarstarfsemi snúa til að skýra þær heimildir sem meðal annars snúa að aflagjöldum á eldisfiski til slátrunar, vörugjöldum af fóðri sem skipað er beint í kvíar á fjörðum og flutningi á lífmassa í sjókvíar til eldis. Allri þessari starfsemi fylgir mikill kostnaður sveitarfélaga í formi uppbyggingar og reksturs hafnarmannvirkja til að þjónusta þessa mikilvægu og vaxandi atvinnugrein sem sjókvíaeldi er ásamt því að sinna öryggisþáttum þar að lútandi.“
Þess ber að geta að dómi þessum hefur þegar verið áfrýjað af hálfu sveitarfélagsins Vesturbyggðar.