Lýsa útilokun Fljótsdælinga frá stjórn SSA sem niðurlægingu fyrir Austurland
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. maí 2025 14:34 • Uppfært 22. maí 2025 17:04
Sveitarstjóri Fljótsdalshrepps segir það niðurlægingu að með nýjum lögum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sé sveitarfélagið það eina á landinu sem útilokað sé frá landshlutasamtökum sveitarfélaga. Fylgjendur breytinganna vilja að fjöldi fulltrúa í stjórn endurspegli með beinum hætti íbúafjölda í sveitarfélögunum fjórum á Austurlandi.
Á haustþingi sambandsins í fyrra var skipuð laganefnd til að fara yfir samþykktir, eða lög, SSA. Samkvæmt tillögu hennar, sem samþykkt var á aðalfundi sambandsins á Eiðum fyrir tveimur vikum, eiga sveitarfélög með 3.000 íbúa eða fleiri, það er að segja Fjarðabyggð og Múlaþing, tvo fulltrúa í stjórn en sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri, það er að segja Vopnafjarðarhreppur, einn mann í stjórn.
Það þýðir að Fljótsdælingar eiga ekki mann í stjórn. Á fundinum var þó samþykkt að þeir fengju áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt.
Samþykktum SSA var síðast breytt árið 2020, samhliða tilurð Múlaþings. Þá voru lögin þannig að stjórn væri skipuð fimm einstaklingum sem kosnir væru á aðalfundi, en atkvæðavægi þar fer eftir íbúafjölda sveitarfélaganna. Áður var SSA skipt í norður- og suðursvæði og áttu sveitarfélögin af hvoru sameiginlega ákveðinn fjölda fulltrúa í stjórn sem þá var sjö manna.
Fljótsdælingar vildu stjórnarmann með atkvæðisrétt
Við umræður á aðalfundinum á Eiðum lögðu Fljótsdælingar til breytingatillögu þannig að þeir fengju fulltrúa með atkvæðisrétt og stjórnin yrði skipuð sex fulltrúum. Atkvæði formanns myndi ráða ef jafnt væri í stjórninni. Slíkt er vel þekkt, svo sem í stjórnum fyrirtækja og félagasamtaka.
Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdælinga, mælti fyrir tillögunni. Samkvæmt fundargerð sagði hann að engar aðrar kröfur væru gerðar um aðild að stjórninni, nema að Fljótsdælingar væru útilokaðir. Hann tók dæmi af öðrum landshlutasamtökum þar sem annað hvort væri öllum sveitarfélögum tryggð stjórnarseta, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu þar sem Reykjavík með yfir 146.000 íbúa og Kjósarhreppur með ríflega 300 íbúa eiga sitt hvorn stjórnarmanninn, eða að stjórnarmenn væru kosnir eftir atkvæðavægi. Fljótsdalshreppur væri þar með eina sveitarfélagið á landinu útilokað frá stjórnarsetu í landshlutasamtökum.
Í fundargerðinni kemur fram að Helgi hafi lýst tillögunni sem „ekki bara móðgun heldur niðurlægingu fyrir Austurland.“ Óskiljanlegt væri hvernig hún stuðlaði tilgangi SSA um að efla Austurland. Hann sagði það einnig þversögn að lögum samkvæmt öðlaðist áheyrnarfulltrúinn atkvæðisvald þegar svæðisskipulagsmál séu tekin fyrir hjá SSA.
Efins um aukið vægi formanns
Tillaga Fljótsdælinga átti takmarkaðan hljómgrunn meðal annarra fulltrúa sem tóku til máls. Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA og byggðaráðs Múlaþings, sagði að skrýtið væri að stóru sveitarfélögin hefðu bara tvö atkvæði ef Fljótsdælingar hefðu eitt. Til að jafna atkvæðavægið gagnvart íbúafjölda þyrfti 40 manna stjórn ef Fljótsdælingar væru með eitt atkvæði. Hún kom einnig inn á að fleiri stjórnarmenn þýddu meiri kostnað fyrir sambandið.
Helgi Hlynur Ásgrímsson og Eyþór Stefánsson, fulltrúar úr sveitarstjórn Múlaþings, mótmæltu því báðir að formaðurinn hefði úrslitaatkvæði, slíkt skapaði valdaójafnvægi. Helgi Gíslason spurði á móti hvort betra væri að Vopnafjarðarhreppur með 600 íbúa hefði oddaatkvæði þegar stóru sveitarfélögin yrðu ósammála.
Helgi Hlynur sagði einnig frá því í ræðu sinni að atkvæði í stjórninni skiptu sannarlega máli. Hann hefði ekki verið boðaður sem varmaður á fundi þar sem rætt var um Hamarsvirkjun því áhersla hefði verið á einingu stjórnar. Stjórnin mótmælti því að virkjunin væri ekki inni í rammaáætlun.
Telja áheyrnarfulltrúann stórt skref
Eyþór auk þeirra Jóns Björns Hákonarsonar og Ragnars Sigurðssonar úr Fjarðabyggð sögðu að Fljótsdalshreppur hefði sterka stöðu miðað við stærð í gegnum áheyrnarfulltrúann. Eyþór sagði Borgarfjarðarhrepp aldrei hafa átt sérstakan fulltrúa í stjórn. Jón Björn sagði að sveitarfélög á Austurlandi hefðu flest verið 22 talsins. Mikilvægast væri að fá öll sjónarmið að borðinu. Ragnar hafnaði því að lögin útilokuðu Fljótsdælinga frá stjórnarsetu og hélt því fram að vægi þeirra innan stjórnar hefði aukist.
Atkvæði féllu á þann veg að fulltrúar Fljótsdals, Vopnafjarðarhrepps og eins fulltrúa úr Múlaþingi greiddu atkvæði með breytingatillögunni. Fjórir fulltrúar úr Múlaþingi sátu hjá. Gegn henni greiddu atkvæði allir átta fulltrúar Fjarðabyggðar og fimm úr Múlaþingi. Þegar atkvæði eru reiknuð út frá íbúafjölda taldist tillagan felld með 8.101 atkvæðum gegn 1.214.
Tillaga stjórnar var síðan samþykkt með 18 atkvæðum á fundinum, en þrír sátu hjá. Samhljóða var samþykkt breytingartillaga við hana um að áheyrnarfulltrúi Fljótsdalshrepps væri með málfrelsi og tillögurétt.
Sveitarfélögin skiptist á formönnum
Nokkrir þeirra fulltrúa sem tóku til máls ræddu þó að skoða þyrfti betur fyrirkomulagið til að leita sátta. Þá var samþykkt samhljóða tillaga Ragnars um að stjórn SSA myndi fyrir haustþing 2026 móta tillögu um breytingu á fjölda stjórnarmanna, atkvæðavægi fulltrúa og kostnaðarhluta sveitarfélaga. Tillagan miði að því að öll sveitarfélög hafi atkvæðisrétt á stjórnarfundum, með tilliti til atkvæðavægis út frá íbúafjölda. Tveir greiddu atkvæði gegn henni en einn sat hjá.
Á fundinum var einnig samþykkt breyting á lögum SSA þannig að formaður komi ekki frá sama sveitarfélagi tvö kjörtímabil í röð. Vilhjálmur Jónsson frá Múlaþingi velti því upp hvort skoða mætti hvort formaður og varaformaður, sem kæmu úr sitt hvoru sveitarfélaginu, hefðu 1,5 atkvæði hvor.