Skip to main content

Lýsa vonbrigðum með framgang viðræðna um kjarasamning við Alcoa Fjarðaál

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. jún 2025 14:08Uppfært 13. jún 2025 14:10

Samninganefndir AFLs Starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands lýsa yfir miklum vonbrigðum með gang viðræðna um nýjan kjarasamning við Alcoa Fjarðaál. Félögin undirbúa nú aðgerðir sem gætu endað í verkfalli. Formaður AFLs segir félaga vilja að minnsta kosti sömu launahækkanir og samið hefur verið um hjá öðrum stóriðjufyrirtækjum hérlendis.


Samningar hafa verið lausir frá 1. mars en viðræður hafa staðið af og til síðan um miðjan desember þegar félögin lögðu fram kröfur sínar. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í byrjun apríl sem hélt samningafundi með deiluaðilum á Egilsstöðum í vikunni eftir páska.

Fjórar vikur eru síðan minni samningahópar funduðu í Karphúsi, aðsetri ríkissáttasemjara. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs, segir að félögin hafi þá skilið eftir ákveðnar hugmyndir hjá fyrirtækinu sem loks hafi verið svarað síðasta föstudag. „Að okkar mati voru þau viðbrögð ekki þannig að við gætum haldið áfram samningaviðræðum.“

Í gær sendu samninganefndirnar frá sér opinbera yfirlýsingu þar sem lýst er yfir vonbrigðum með gang viðræðnanna. Þar segir að Alcoa, líkt og aðrar stóriðjur á Íslandi, hafi of lengi komist upp með að greiða starfsfólki taxta sem séu lægri en þeir sem tíðkist á almennum vinnumarkaði. Samninganefndirnar benda á að rekstrarhagnaður Alcoa Fjarðaáls í fyrra hafi verið 7,4 milljarðar króna sem sýni að svigrúm sé til að bæta kjör starfsfólks.

Fyrsta skrefið að aðgerðum


Um leið sendu samninganefndirnar ítrekun á kröfum sínum til ríkissáttasemjara og skilaboð um að þær íhugi lýsa yfir árangurslausum viðræðum. Það er forsenda frekari aðgerða, sem í versta falli enda í verkfalli.

Enn er langur vegur í það. Í samningum eru ákvæði um hvernig sé staðið skuli að vinnustöðvun og að minnsta kosti hálft ár líður þar til verkfallið sjálft skellur á, en á undan því eru meðal annars atkvæðagreiðslur.

Sætta sig ekki við lægri hækkanir en hjá öðrum stóriðjufyrirtækjum


Í sömu viku og ríkissáttasemjari stóð fyrir fundinum á Egilsstöðum voru nýir kjarasamningar í álverinu og járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga staðfestir. Í yfirlýsingunni frá í gær segir að samninganefnd Alcoa hafi ítrekað lagt fram tilboð um hlutfallslega lægri launahækkanir en verið hafi á almennum vinnumarkaði og öðrum stóriðjum að undanförnu.

Samninganefndir félaganna skora því á Alcoa að sýna, það sem þær kalla „samfélagslega ábyrgð“ með sambærilegum launahækkunum enda fái fyrirtækið íslenska orku á hagstæðum kjörum. Hjördís Þóra lýsir vonbrigðum með að viðræðurnar hafi ekki gengið hraðar eftir að samningarnir á Grundartanga kláruðust.

„Alcoa virðist ætla að leggja áherslu á að semja á öðrum nótum en þar. Við teljum okkur ekki geta samið um lægri hækkanir en þar var gert og höfum ítrekað áréttað það. Fyrirtækið er samt nýbúið að birta afkomutölur og mér er sagt að forstjórinn hafi á fundum með starfsfólki lýst því að viðræður gangi vel og til standi að bjóða góða samninga. Það eru vonbrigði að viðræðurnar séu ekki komnar lengra eftir hálft ár.“