Lýsir áhyggjum af leikskólamálum á Héraði næstu árin

Miðað við fjárhagsáætlun Múlaþings til ársins 2027 er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu leikskólaplássa á Héraði frá því sem nú er fyrr en árið 2030. Það þrátt fyrir að nú þegar séu fyrirséð vandamál og plássleysi.

Ívar Karl Hafliðason, sjálfstæðisflokki, vakti máls á þessu við umræðu í sveitarstjórn Múlaþings um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins til ársins 2027 sem fram fór í gær. Taldi Ívar ljóst að fyrr en síðar yrði líkast til að opna á nýjan leik gamla leikskólann í Fellabæ en honum var lokað á síðasta ári þegar nýr leikskóli tók til starfa. Þykir Ívari ljóst að umhverfis- og framkvæmdaráð sveitarfélagsins þurfi að leggjast vel yfir stöðuna á komandi árum til að koma í veg fyrir að skortur á leikskólaplássum verði að veruleika á allra næstu árum.

„Það er annað sem ég hef stórar áhyggjur af og það er staðan í leikskólamálum í þéttbýlinu við fljótið. Staðan er sú í dag að eftir ár verða tvö laus pláss [í leikskólunum]. Þá verða rúm fimm ár þangað til við fjölgun leikskólaplássum samkvæmt fjárhagsáætlun 2024 til 2027. Vöxturinn í þessu þéttbýli hefur verið nokkuð stöðugur um þrjú til fjögur prósent síðustu ár og stendur undir nánast allri fjölgun í Múlaþingi. Ég veit ekki hvernig við ætlum leysa leikskólamál 2026, 2027, 2028, 2029 og 2030. Við eigum gamlan Hádegishöfða [gamli leikskólinn í Fellabæ] sem við gætum mögulega tekið aftur í notkun og ég held okkur muni bara ekki veita af því.“

Kallaði Ívar eftir heiðarlegri umræðu um hvað gera skuli áður en í óefni sé komið. „Ég held það sé óhætt að segja hlutina eins og þeir eru. Við höfum því miður lent í því að hér sé verið að byggja húsnæði, óþarflega flókið og kannski óþarflega dýrt. Nú síðast í nýja leikskólanum okkar í Fellabæ þar sem eru bæði margir fermetrar per barn og það dýrir fermetrar sem er svona staður sem maður vill helst ekki vera á. Börnunum líður alveg jafn vel hvort sem húsið kostar sjö hundruð þúsund fermetrinn eða milljón. Það nægir að rýmið og annað sé huggulegt.“

Nýi leikskólinn í Fellabæ sem opnaði síðasta ár en bygging hans fór verulega umfram áætlanir. Mynd VSÓ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.