Maí þegar orðinn sögulega hlýr á Austfjörðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. maí 2025 10:12 • Uppfært 12. maí 2025 10:48
Fyrsti þriðjungur maímánaðar hefur aldrei mælst hlýrri á Austfjörðum heldur en í ár. Spáð er yfir 20 stiga hita frá morgundeginum og svo langt sem spár ná.
Trausti Jónsson, veðurfræðingur, vekur athygli á óvenju hlýjum fyrstu tíu dögum í maí á bloggsíðu sinni, Hungurdiskum. Reyndar er það svo að hlýtt hefur verið um allt land en viðbrigðin eru hvað mest á Austurlandi.
Á Austfjörðum hefur aldrei mælst hlýrra þessa daga og á Austurlandi að Glettingi, sem og Norðausturlandi og Suðausturlandi er þetta næst hlýjasta maíbyrjun sögunnar. Mesta frávikið á einstakri veðurstöð er á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þar sem hitinn hefur verið 5,5°C fyrir ofan meðalár.
Samkvæmt veðurspá er spáð 16 gráðum á nokkrum stöðum á Austurlandi strax í dag. Eftir hádegi á morgun er von á yfir 20 gráðum og gert er ráð fyrir að hitinn haldist um og yfir því á fjölda veðurstöðva eystra fram yfir næstu helgi.
Í yfirferð Bliku segir að hæð við suðaustanvert landið ýti yfir það hlýju lofti. Almennt verði sólríkt og úrkomulítið næstu vikur á Austurlandi.
En það verður ekki á allt kosið. Samkvæmt yfirferð Trausta hefur úrkoma í maí aðeins mælst 3 millimetrar á Dalatanga eða tíundi hluti meðalúrkomu. Blika segir að í kringum 25. maí virðist vindur aftur snúast til norðurs og austurs og því fylgi úrkoma.