Makrílveiðar ganga almennt hægt
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. júl 2025 15:43 • Uppfært 29. júl 2025 15:44
Þrjú austfirsk skip komu í land um hádegið með makríl sem veiddur var í Smugunni. Íslensku skipin eru austarlega á hafsvæðinu og veiðarnar ganga hægt. Skipstjóri segir makrílveiðar verða þyngri með hverju árinu.
„Við höfum meira fyrir þessu á hverju ári. Veiðarnar í sumar hafa almennt gengið hægt,“ segir Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi NS, skipi Brims.
Venus kom til hafnar á Vopnafirði um hádegið með 1.050 tonn. Það er næst stærsta löndunin, af fjórum, á þessari vertíð. Skip Brims hjálpast að við veiðarnar, tvö veiða meðan eitt siglir. Venus og Svanur veiddu meðan Víkingur fór að landa. Þrjá daga tók að fylla Venus. „Þessi samvinna skiptir miklu máli. Við þessar aðstæður tekur styttri tíma að fylla skipið og það fer betra hráefni í land,“ segir Bergur.
Makrílveiðar hófust upp úr miðjum júní með því að íslensku skipin byrjuðu að þreifa fyrir sér í Smugunni. Þar fékkst lítið þannig að veiðarnar færðust fljótlega yfir í íslensku lögsöguna. Ekki er hægt að tala um mokfiskerí en fiskurinn var góður. „Þetta var fiskur sem kom úr færeyskum sjó. Við vorum innan lögsögunnar í talsverðan tíma í mjög góðum fiski.“
Ekkert að sjá innan íslensku lögsögunnar
Um miðjan júlí fóru skipin svo aftur í Smuguna og hafa síðustu daga verið í henni suðaustanverði. „Við höfum mest verið við Noregslínuna. Það hafa komið smá göngur yfir hana. Það eru 360 mílur í land, 28 tíma sigling.
Þessi fengur sem við komum með núna er allt í lagi, en hann má ekki verða gamall. Hann er miklu linari en sá sem við veiddum í íslensku lögsögunni. Aflinn fer samt allur til manneldisvinnslu,“ segir Bergur.
Gert er ráð fyrir að Venus fari út strax eftir löndun annað kvöld. Siglingarnar eru nýttar til að horfa eftir makríl nær landi. „Við leitum bæði á leiðinni heim og út. Síðan leituðu tvö skip sérstaklega í fyrradag og reyndu að veiða en það skilaði engum árangri.“
Auk Venusar kom Guðrún Þorkelsdóttir til hafnar á Eskifirði og Hoffell í land á Fáskrúðsfirði um hádegið. Hoffell var með um 600 tonn sem fara öll í manneldisvinnslu.