Mála regnboga á götu í Neskaupstað í dag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. ágú 2023 10:28 • Uppfært 03. ágú 2023 10:29
Regnbogi verður málaður á götu í Neskaupstað í samvinnu Fjarðabyggðar og Hinsegin Austurlands. Bæjarstjórinn segir mikilvægt að sýna hinsegin fólki stuðning í verki. Takmörkun verður á umferð um Stekkjargötu í dag vegna þessa.
„Við erum að sýna stuðning í verkið og búa til jákvæða umræða umræðu um að okkur sé ekki sama um hvernig orðræðan er að þróast. Það verða allir að koma að því að uppræta hatur og niðurrif,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Í byrjun júlí var gangbraut á Stöðvarfirði máluð í regnbogalitunum. Fyrir eru regnbogar í fleiri byggðarlögum þótt þeir hafi ekki allir verið málaðir af hálfu sveitarfélagsins heldur einnig einkaaðila sem vilja auka sýnileika hinsegin fólks.
„Eftir að regnbogarnir eru málaðir hefur verið kallað eftir því víðar úr samfélaginu okkar að hafa slíkar götur líka í fleiri byggðarlögum, einkum af fólki sem ber umhyggju fyrir málefninu. Við höfum ekki fundið fyrir öðru en gleði og jákvæðni með að þetta sé gert.“
Málað verður á Stekkjargötu við Egilsbúð klukkan 16:00 í dag. Vegna þessa verður lokað inn á götuna frá Hafnargötu og Hólsgötu frá hádegi og fram eftir kvöldi.
Mynd: Tara Tjörvadóttir