Skip to main content

Malbika bílastæðin við Hafnarhólmann á næstu dögum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. sep 2025 17:10Uppfært 17. sep 2025 17:17

Aðkoma að hinum þekkta ferðamannastað Hafnarhólma mun batna enn frekar á næstu dögum því von er á dugmiklu gengi til að malbika bílastæðin á staðnum. Það einn síðasti hlekkurinn í að bæta aðgengið að staðnum en Hafnarhólmavegur hefur löngum verið þröngur mjög sem erlendu ferðafólki hefur mörgu þótt óþægilegt.

Eftir nokkurra ára undirbúning hófst gjaldtaka vegna bílastæða við þjónustuhús Hafnarhólmans formlega í sumar en stóð aðeins yfir í rúman mánuð meðan verið var að keyra nýtt gjaldskyldukerfið fyrsta sinni.

Alda Marín Kristinsdóttir, fulltrúi sveitarstjóra á Borgarfirði eystra, segir þá keyrslu hafa að mestu gengið vel þó var hafi orðið við lítilsháttar hnökra. Formleg gjaldtaka við hólmann hefjist á næsta ári þegar gjaldskylda verði strax frá aprílmánuði og allt yfir þann tíma sem lundinn hefur sig í hólmanum.

„Þetta sumarið prófuðum við bara kerfið frá því seint í júlí fram til 10. ágúst eða svo og það gekk að mestu vel en einhverra hnökra varð vart sem leysa þarf úr fyrir næsta sumar en við sjáum aðeins gjaldtöku fyrir okkur á meðan lundinn er á svæðinu enda það hann sem trekkir ferðafólkið. Þannig að gjaldtaka var kringum þrjár vikur alls. Næsta sumarið munum við þó hefja gjaldtöku strax í apríl.“

Síðustu ár hefur verið unnið að lagfæringum á Hafnarhólmsvegi úr þorpinu og að hólmanum og það verk langt komið og malbikun bílastæða mun enn frekar bæta aðgengi og vonandi upplifun gesta.

„Ég sjálf eyddi nokkrum tíma í að fylgjast með hvernig hlutirnir gengju fyrir sig þegar gjaldtakan var sett á og það reyndist vera almenn sátt og skilningur á gjaldinu. Gestir voru líka fljótir að leita mann uppi ef eitthvað bjátaði á því þá er fólk óöruggt sem er ekki kjörstaða á ferðalögum. Í heild var mjög gott að fá þessa keyrslu á kerfið þó tíminn væri stuttur.“

Síðasta ár var algjört metár í komum gesta að Hafnarhólmanum þegar rúmlega 67 þúsund gestir dvöldu þar stundarkorn. Þetta árið, samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar, er lakara því þar eru aðeins tæplega 53 þúsund gestakomur skráðar hingað til. Það samdráttur um 26% en ekki liggur fyrir hver ástæða þessa er.