Skip to main content

„Margir mæta ekki í skólann því þeim líður ekki vel“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. apr 2023 10:47Uppfært 12. apr 2023 10:47

Niðurstöður af ungmennaþingi sýna að ungmenni í Fjarðabyggð vantar betri stuðning vegna slæmrar andlegrar líðan. Þau setja meðal annars fram óskir um aðgang að sálfræðingi í skólum og segja að mikið sé um einelti á samfélagsmiðlum. 

Niðurstöður af ungmennaþingi í Fjarðabyggð sýna að það er mikið sem hægt er að bæta í félags- og skólastarfi sveitarfélagsins. Þar kemur fram að nemendur eru að glíma við ýmis vandamál eins og kvíða, þunglyndi, þreytu og svefnleysi. Þá segja ungmenni að skólinn byrji of snemma og það vanti stuðning fyrir þá sem glími við skólaforðun og slæma líðan. Ein af niðurstöðunum var að það sé mikið um einelti á samfélagsmiðlum og að samnemendur þurfi að standa saman gegn því. 

„Margir mæta ekki í skólann því þeim líður ekki vel“ er ein af þeim niðurstöðum sem komist var að á þinginu. Ungmennaráð leggur til að skólinn mætti byrja seinna á daginn og að það þurfi að vera gagnkvæm virðing á milli starfsfólk grunnskóla og nemenda. Ásamt því er greint frá því að samnemendur þurfi að styðja við bakið á hvor öðrum og sérstaklega þá sem glíma við skólaforðun. 

Ungmennaráðið sér margar lausnir við vandanum og leggja meðal annars til að bjóða nemendum stuðning með bættu aðgengi að skólahjúkrunarfræðingi og sálfræðingum. Ásamt því benda þau á að nemendur þurfi meiri svefn og næringarríkari mat í skólanum. Þá óska nemendur eftir hugleiðslu og hvíldartímum í skólanum. Ungmennaráðið telur einnig mikilvægt að vinna á fordómum meðal nemenda gagnvart andlegum veikindum.