Skip to main content

Margvísleg framtíðartækifæri í sveitum Austurlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. nóv 2023 16:01Uppfært 24. nóv 2023 10:22

Tækifærin skortir sannarlega ekki í sveitum Austurlands til að laða að ungt fólk og fylla sveitirnar af lífi eins og áður fyrr var raunin og reglan. Það reyndar verið brýn nauðsyn um töluverða hríð að yngja upp í sveitunum því margar jarðir leggjast gjarnan í eyði þegar eldri bændur hætta búskap.

Það er megin niðurstaða fjölmenns samráðsfundar sem haldinn var á Eiðum seint í sumar en viðfangsefni gesta hans var einmitt með hvaða hætti mætti helst freista ungs fólks til að setjast að í sveitum í fjórðungnum.

Nýverið kom út lokaskýrsla þess fundar en hann sóttu alls 60 manns hvaðanæva að á Austurlandi. Fundurinn tengdist verkefninu Vatnaskil, sem að standa Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Búnaðarsamband Austurlands og Félag ungra bænda á Austurlandi, og snýst um að auka fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýlinu.

Það voru gestir sjálfir sem komu fram með þær hugmyndir sem svo voru ræddar í kjölfarið á fundinum en yfir 30 hugmyndir að hinu og þessu voru settar fram og þeim forgangsraðað af þátttakendum í lokin.  Forgangsröðin innviða snérist um bættar samgöngur og þar helst nefnd Fjarðarheiðar- og Mjóafjarðargöng, Öxi og Suðurfjarðavegur. Í öðru sæti þar var framleiðsla hvers kyns og þar verið að tala um uppbyggingu framleiðslueldhúsa, heimavinnslu, sláturhús og markaðssetningu afurða. Annað sem  mikilvægt þótti var bætt símasamband, ljósleiðari og þriggja fasa rafmagn en töluvert af bæjum í dreifbýlinu eru enn án þessa alls.

Matvælaframleiðsla í sveitunum varð einnig efst á blaði í forgangsröðun málefna en lítið minna mikilvægt var að aðbúnaður landbúnaðs almennt og mjög breytt eignarhald á landi víða í dreifbýlinu. Styrkveitingar þurfi að koma til nýrra ungra bænda því rekstur á búum hefur lengi verið í járnum og það heilli eðlilega ungt fólk lítið að sökkva sér í skuldafen því tekjur séu almennt lágar. Þar einnig er stórt vandamál hvað landakaup eru dýr enda margir aðrir en bændur sem hafa falist eftir jörðum hér og þar til annarra nota en landbúnaðar. Hugmyndir eins og ábúðaskylda eða beinlínis að nýting jarða sé ákveðin fyrirfram voru hugmyndir sem viðraðar voru. Þá þótti mörgum miður hversu margar jarðir eru farnar að skiptast niður á marga afkomendur en slíkt er bara til þess fallið að veikja byggð í sveitunum.

Stór hugmyndatafla dugði vart fyrir allar þær hugmyndir sem viðraðar voru á fundinum á Eiðum en ljóst að samhent átak ýmissa aðila, þar ekki síst ríkisins, þarf að koma til ef snúa skal slæmri þróun í sveitunum við.