María Guðrún nýr sóknarprestur á Vopnafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. jún 2025 11:29 • Uppfært 06. jún 2025 11:30
Sr. María Guðrún Ljungberg hefur verið ráðin sem sóknarprestur í Hofsprestakalli á Vopnafirði. Hún kemur til starfa þann 1. ágúst.
María Guðrún er fædd árið 1985, lauk BA gráðu í guðfræði árið 2009 og meistaragráðu í faginu, með áherslu á sálgæslu tveimur árum síðar. Meistararitgerð hennar kallast „Ég og Guð, O boy!“ en þar skoðaði María Guðrún þróun guðsmyndar og trúarvitundar kvenkyns guðfræðinema við skólann.
Hún vígðist sem prestur árið 2013 og starfaði síðan í um ár í Patreksfjarðarprestakalli, sem sinnir Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Eftir það hélt hún til Lundar í Svíþjóð til frekara náms.
Hún tók vígslu til að starfa í Svíþjóð og hefur unnið þar í rúman áratug. Í tilkynningu frá Þjóðkirkjunni segir að hún búi að víðtækri reynslu úr safnaðarstarfi bæði í Svíþjóð og á Íslandi. Hún hafi starfað sem prestur með áherslu á börn og unglinga en einnig sérhæft sig í sálgæslu og andlegri leiðslu.
Í Austfjarðaprestakalli er enn laus staða, sem hefur verið laus í tæpt ár. Til stendur að auglýsa hana aftur í vor.
Mynd: Þjóðkirkjan