Markaðskönnun lokið vegna Axarvegar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. mar 2022 16:02 • Uppfært 07. mar 2022 16:03
Vegagerðin hefur lokið markaðskönnun fyrir gerð Axarvegar. Ekki fæst gefið upp hvaða verktakar buðu í verkið.
Fyrir mánuði var auglýst eftir áhugasömum bjóðendum vegna vegarins, sem vinna á í samvinnu ríkis og einkaaðila. Verkið felur í sér fjármögnun, hönnun nýrrar legu vegarins, framkvæmd verkefnisins auk viðhalds og umsjónar leiðarinnar til allt að þrjátíu ára.
Í könnuninni var leitað eftir aðilum sem hefðu áhuga á að semja við Vegagerðina, um þessa þætti. Fram kemur í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar að næst verði farið í viðræður við hvern og einn þeirra aðila sem svöruðu tilboðinu. Ekki er gefið upp hverjir svöruðu tilboðinu.
Eftir viðræðurnar er farið í eiginlegt útboð á verkinu þar sem útboðsskilmálar geta breyst, eða tekið mið af því sem fram kemur í þeim. Ekki er ljóst hvenær því verði lokið. Í skilmálum könnunarinnar kom fram að framkvæmdir við veginn eigi að hefjast fyrri hluta árs 2023. Þátttaka í könnuninni fól ekki í sér skuldbindingu á að taka þátt í útboði verksins síðar, heldur fyrst og fremst upplýsingagjöf.
Forhönnun og umhverfismati er lokið auk þess sem veglína hefur verið staðfest í skipulagi nærliggjandi sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að ríkið leggi til allt að 50% framkvæmdafjár.
Vegurinn verður 20 km langur frá vegamótum núverandi Skriðdals- og Breiðdalsvegar, yfir Öxi niður í Berufjörð að hringvegi. Vegurinn fer mest í 520 metra hæð, eins og núverandi vegur. Gert er ráð fyrir að minnsta kosti einni brú á leiðinni, yfir Berufjarðará, en hugsanlegt er að hönnun leiði í ljós að hagkvæmt væri að hafa brýr í stað ræsa og fyllinga á fleiri stöðum.