Skip to main content

Markmiðið að fjölga störfum á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. okt 2023 20:02Uppfært 06. okt 2023 20:03

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, segir breytingar og sameiningar stofnana innan ráðuneytisins eiga geta orðið til þess að fjölga störfum á landsbyggðinni. Það verði gert með að staðsetja störfin þar sem verkefnin séu.


Þetta kom fram í ávarpi Guðlaugs Þórs á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í síðustu viku. Í byrjun árs kynnti hann tillögur um að sameina 13 stofnanir innan hans ráðuneytis í þrjár. Hann sagði mikla skörun á verkefnum milli stofnana og þar með væri starfsfólkið illa nýtt.

Guðlaugur Þór sagði markmiðið að fjölga starfsfólki á Austurlandi. Það yrði ekki gert með að auglýsa störf án staðsetningar eða færa til fólk með handafli heldur auglýsa störf þegar þau losna með ákveðnar starfsstöðvar sem yrðu þá í nágrenni við væntanleg verkefni.

„Við færðum Vatnajökulsþjóðgarð úr Garðabæ því Garðabær er ekki við Vatnajökul. Við viljum ekki að Reykjavík sé stýrt frá Kaupmannahöfn,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars og sýndi tölur um hvernig íbúum og opinberum störfum hefur á undanförnum áratugum fjölgað í og við höfuðborgarsvæðið.

Hrósaði Hallormsstaðarskóla


Í ávarpi sínu kom Guðlaugur Þór einnig inn á meðhöndlun úrgangs og hringrásarhagkerfið. Hann vísaði til árangurs íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja þar sem fyrir nokkrum árum hefði staðan verið sú sama hérlendis og víðast í heiminum, að 50% afla sé í raun hent.

Síðar hafi náðst að skapa mikil verðmæti úr þeim hlutum fiskanna sem áður var hent. „Það er góður bisness að vera í hringrásarhagkerfinu.“

Guðlaugur Þór notaði tækifærið til að hrósa Hallormsstaðarskóla sem hafi fært sig yfir í nám í skapandi sjálfbærni. „Það er algjörlega magnað að heyra forustufólk skólans segja frá því sem verið er að gera. Þar er í raun námsskrá frá 1929 sem heitir núna skapandi sjálfbærni. Að mörgu leyti vorum við með betra kerfi þá.“