Matarmót Austurlands opnað almenningi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. nóv 2023 14:22 • Uppfært 07. nóv 2023 14:22
Matarmót Austurlands, sem til þessa hefur verið ætlað væntanlegum viðskiptavinum austfirskra matvælaframleiðenda, verður opnað almenningi þegar það verður haldið í Valaskjálf á Egilsstöðum í þriðja sinn á laugardag. Þá verður matarmótið útvíkkað þannig að framleiðendur úr öðru austfirsku hráefni verða einnig með vörur til sýni.
„Það eru komnar rúmlega tuttugu skráningar og við eigum von á að þeim fjölgi fyrir helgina,“ segir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, sem heldur utan um matarmótið.
Það var fyrst haldið árið 2021 en síðan aftur í fyrra. Í bæði skiptin var það lokað, það til þess boðið fulltrúum veitingastaða eða annarra væntanlega viðskiptavina og hagsmunaaðila. Að þessu sinni er matarmótið opið almenningi frá 14:30-16:30.
„Sú ósk kom fram í fyrra að opna það þannig það væri hægt að selja beint til neytenda. Það verður gaman að opna mótið fyrir fólkinu á götunni til að sýna því hvað það er mikil gróska í starfseminni.“
Nýir liðir
Önnur breyting á Matarmótinu er að við bætast aðilar sem framleiða úr austfirsku hráefni svo sem við eða jurtum. Er það í samræmi við tillögu að breytingu á félaginu Austfirskar krásir, sem tekin verður fyrir á aðalfundi félagsins sem haldinn verður í beinu framhaldi af Matarmótinu.
Einn nýr vinkill verður á því í viðbót. Aðilar sem eru komnir af stað í vöruþróun en ekki kominn með öll tilskilin leyfi til sölu gefa fólki smakk undir yfirskriftinni „matur í mótun. Eins er von á Ægi Friðrikssyni, uppöldum Héraðsbúa, sem kennir í matreiðslumeistaranámi Menntaskólans í Kópavogi og tveimur kokkanemum hans að austan. Þeir eru að safna að sér austfirsku hráefni sem þeir ætla að matbúa úr og gefa gestum að bragða á Matarmótinu.
Landsins gæði
Þess utan hefst dagurinn á málþingi klukkan tíu um morguninn. Er þar um að ræða lokahnykkinn á verkefni sem Austurbrú hefur unnið að undanfarið ár og kallast „Landsins gæði.“ Þar hefur austfirskt hráefni verið kortlagt, meðal annars með spurningakönnun og rýnihópum síðasta vetur.
Erna Rakel Baldvinsdóttir, úr rannsókna- og greiningarteymi Austurbrúar, fer yfir helstu niðurstöður könnunarinnar. Síðan koma fyrirlesarar sem tala frekar um hver séu landsins gæði á Austurlandi, hvernig þau séu nýtt og hvernig sé hægt að nýta þau betur.
Þar tala þau Guðbjörg Gissurardóttir og Jón Árnason, eigendur Í boði náttúrunnar, Kristín María Sigþórsdóttir upplifunarhönnuður, Ragna Óskarsdóttir eigandi Íslensks dúns á Borgarfirði og Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.
Halldóra Dröfn væntir ánægjulegs Matarmóts á laugardag, eins og verið hefur síðustu tvö ár. „Frumkvöðlar á svæðinu hafa sagt Matarmótið skipta höfuðmáli því það eykur sýnileika og eflir samstarf. Fólkið hittist þar til að eiga samtal og áttar sig betur á styrk þess að vinna sem heild.“