Skip to main content

Matej Karlovic Íþróttamaður Hattar 2023

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. jan 2024 16:28Uppfært 09. jan 2024 16:35

Körfuknattleiksmaðurinn Matej Karlovic er Íþróttamaður Hattar árið 2023. Þetta var kunngjört á Þrettándahátíð íþróttafélagsins um liðna helgi.

Matej þekkja allir sem með körfuknattleik fylgjast en hann hefur verið bæði lykilmaður og leiðtogi liðs meistaraflokks Hattar í efstu deild í körfuknattleik. Liðið var sem kunnugt er hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppnina á síðustu leiktíð og komst alla leið í undanúrslit í VÍS-bikarnum. Tölfræðilega var árið flott hjá Matej með Hetti. Hann skoraði 10 stig að meðaltali í leikjum auk þess að taka 4 fráköst og gefa 2,5 stoðsendingar. Hann gekk fyrst til liðs við Hött árið 2019 og er kominn til að vera á Egilsstöðum með konu sinni og tveimur börnum.

Á sama tíma voru einnig heiðraðir einstaklingar sem fram úr sköruðu í öðrum greinum innan félagsins. Birna Jóna Sverrisdóttir var valin frjálsíþróttakona Hattar, Sæbjörn Guðlaugsson knattspyrnumaður Hattar, Matej Karlovic körfuknattleiksmaður ársins og Katrín Anna Halldórsdóttir fimleikakona ársins. Að auki voru þau Hrefna Björnsdóttir og Sverrir Rafn Reynisson valin starfsmerkishafar liðins árs fyrir framúrskarandi stuðning og hvatningu til íþróttafólks Hattar auk þess sem bæði hafa sinnt ýmis konar sjálfboðaliðavinnu kringum stærri mót gegnum tíðina.

Matej með viðurkenningu sína sem Íþróttamaður ársins hjá Hetti. Með honum er Lísa Leifsdóttir, formaður Hattar, og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.