Skip to main content

Matsskýrsla umhverfisáhrifa vegna vindmylla við Lagarfossvirkjun kynnt í haust

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. júl 2025 14:26Uppfært 02. júl 2025 14:34

Áætlað er af hálfu Orkusölunnar að vinnsla matsskýrslu vegna umhverfisáhrifa vindmylla þeirra sem reisa á við Lagarfossvirkjun verði lokið með haustinu. Vonir standa til að öll leyfismál vegna áformanna geti verið í höfn innan tveggja ára.

Það staðfestir Magnús Kristjánsson, forstjóri fyrirtækisins, en gangi allt eftir verður hér um að ræða allra fyrstu stóru vindmyllurnar sem rísa á Austurlandi en önnur og mun stærri slík verkefni í fjórðungnum eru í svipuðu ferli.

Að sögn Magnúsar standa nú yfir ítarlegar rannsóknir á flugi farfugla á svæðinu sem um ræðir og má glöggt sjá á meðfylgjandi mynd. Að sama skapi er unnið að viðhorfskönnun meðal íbúa og ferðafólks til að fá fram sem víðtækasta mynd af afstöðu fólks til verkefnisins.

Við fylgjumst jafnframt náið með vindhraða og -stefnu á svæðinu, í mismunandi hæðum, til að fá sem gleggsta mynd af möguleikum til vindorkuframleiðslu.Við áætlum að matsskýrsla um umhverfisáhrifin verði birt í haust. Þá mun almenningi gefast kostur á að kynna sér efni hennar og koma með ábendingar eða athugasemdir. Hvað framhaldið varðar er það okkar mat að öll leyfismál gætu verið í höfn innan tveggja ára. Verði sú tímalína raunin gætu framkvæmdir hafist að því loknu og tekið um það bil eitt og hálft til tvö ár.

Loftmynd af svæðinu sem um ræðir og inn á hana teiknuð staðsetning þeirra tveggja vindmylla sem þar eiga að rísa. Mynd Orkusalan