Skip to main content

Hitamet í júní, kuldamet í júlí

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. ágú 2023 14:43Uppfært 09. ágú 2023 14:50

Júlímánuður reyndist tiltölulega kaldur á Austurlandi samkvæmt úttekt Veðurstofu Íslands. Svo kaldur að meðalhitastigið reyndist heilum fjórum stigum lægra en í júnímánuði. Engin veðurstöð á Austurlandi mældi hærri meðalhita í júlí en níu stig.

Austfirðingar sem vonuðu eftir sams konar blíðviðri í júlí og var meira og minna allan júnímánuð fengu ósk sína ekki uppfyllta. Sannkölluð hitabylgja gekk yfir stóran hluta júní og meðal annars mældist þá í Hallormsstað hæsti mánaðarmeðalhiti sem mælst hefur þann mánuðinn frá upphafi mælinga á Íslandi. Íbúar á Egilsstöðum upplifðu jafnframt hæsta mánaðarmeðalhita sem þar hefur mælst svo aðeins tvö dæmi séu tekin.

Júlí bauð reyndar líka upp á veðurmet miðað við samantekt stofnunarinnar en hinu megin skalans. Þannig mældist lægsti meðalhiti júlímánaðar á Gagnheiði á Borgarfirði eystra eða heil þrjú stig. Á Gagnheiðinni mældist jafnframt allra mesta frostið í júlí á landsvísu þegar hitastigið féll niður í -2,6 stig. Í Hallormsstað, þar sem hitamet var sett í júní mældist mesta frost í byggð í júlí þegar hitamælirinn sýndi -0,3 stig og meðalhitinn náði ekki 9 stigum. Á Egilsstöðum reyndist meðalhitastigið 2,4 stigum undir meðalhitastigi júlímánaðar síðastliðin tíu ár. Hvergi annars staðar í landinu lækkaði hitastigið svo skarpt frá meðaltalinu.

Atlavík í Hallormsstað. Þar mældist hitamet í júní en kuldamet í júlí. Mynd GG