Skip to main content

Meira en helmingur greitt atkvæði um verkfall í álverinu á fyrsta sólarhringnum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. sep 2025 09:55Uppfært 16. sep 2025 09:56

Á innan við sólarhring hafa 60% þeirra starfsmanna, sem hafa atkvæðisrétt um boðun verkfalls á vegum AFLs starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands, greitt atkvæði. Nýr fundur í deilunni hefur verið boðaður í þessari viku.


Kosningin hófst klukkan 10 í gærmorgunn en samkvæmt frétt frá AFLi höfðu 60% kosið klukkan níu í morgun. Þar segir að atkvæðagreiðslan hafi farið af stað með einstökum krafti, 15% hafi kosið strax á fyrstu tíu mínútunum og 50% um kvöldmat. Alls eru 492 einstaklingar á kjörskrá og er kosningin opin í viku. Hún er rafræn.

Þegar niðurstöður liggja fyrir líða síðan sex mánuðir þar til verkfall hefst með því að byrjað er að slökkva á kerjum. Það þýðir að verkfall byrjar ekki fyrr en 25. mars árið 2026. Ekki fara allir starfsmenn í verkfall í einu heldur líða allt að þrír mánuðir þangað til en á meðan er verksmiðjan smá saman keyrð niður.

Óvenju mikil þátttaka


Í frétt AFLs segir að verkfallsréttur með slíkum takmörkunum sé algengur í stóriðjum þar sem verkföll með skömmum fyrirvara geta valdið miklu tjóni. Félagið segist hafa trúað því að gegn þessum rétti væri Alcoa Fjarðaál viljugt til samninga og myndi mæta almennri launaþróun án átaka. Svo hafi ekki verið.

Enn frekar er rakið að trúlega þurfi áratugi til að finna sambærilega kjörsókn í verkalýðshreyfingunni. Dæmi séu um að innan við 10% hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamninga. AFL hafi í gegnum tíðina lagt í mikla vinnu við félagsstarf sitt en engar sérstakar áminningar sent við upphaf atkvæðagreiðslunnar.

Nýr fundur boðaður


Síðast var gerður vinnustaðasamningur fyrir álverið í mars 2021, en sá samningur hafði verið laus í tæpt ár þegar það var gert. Hann var síðan framlengdur um tvö ár með viðaukum árið 2023.

Þar segir að eftir að verkfallsboðun er samþykkt skuli stéttarfélögin og Fjarðaál setja upp samningaáætlun í samvinnu við ríkissáttasemjara og vinna að lausn deilunnar. Á sama tíma verði unnið að undirbúningi niðurkeyrslu og skipulag hennar útbúið af Fjarðaáli.

Minnst tveimur vikum áður en verkfallið hefst á Fjarðaál að kynna áætlun um hvernig dregið verði úr framleiðslunni og hvaða starfsmenn fari í verkfall í hverri viku. Félagið hefur heimild til að endurskoða þá áætlun reglulega. Þá segir í samningnum að verði boðað til verkfalls falli ákvæði um afturvirkni nýs samnings úr gildi.

Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila næst til fundar á fimmtudag klukkan 10.