Meiri afskipti af ölvuðum ökumönnum austanlands
Lögregla á Austurlandi hefur það sem af er ári stöðvað för sex ökumanna sem reyndust ölvaðir undir stýri en fjöldi slíkra brota nú er á pari við stöðuna þegar verst lét 2017 til 2019.
Þetta má lesa úr nýjustu tölfræði Lögreglunnar á Austurlandi sem hefur tekið saman málafjölda á þeirra borði fyrstu þrjá mánuði ársins.
Á móti kemur mælist umtalsverð fækkun almennra umferðalagabrota. Þau voru rúmlega fjögur hundruð talsins fyrstu mánuði síðasta árs en bókanir lögreglu nú um 250 alls. Sömu sögu er að segja af hraðakstursbrotum. Um 250 voru mældir á of miklum hraða fyrir ári en hingað til 2022 eru slík mál rétt rúmlega hundrað talsins. Þá hafa einungis sjö fengið sekt fyrir að nota ekki bílbelti en voru rúmlega 20 á síðasta ári.
Þrjú kynferðisbrot hafa verið tilkynnt til lögreglu hér austanlands eða eitt á mánuði og skráður fíkniefnabrotum fækkar úr ellefu í sjö.