Skip to main content

Meiri rýmingar og fyrr ef tilteknar aðstæður koma upp

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. apr 2023 16:27Uppfært 17. apr 2023 16:29

Íbúar á hættusvæðum vegna ofanflóða mega eiga von á að rýmingar húsa og svæða verði algengari í framtíðinni sé talin hætta á hraðfara og köldum snjóflóðum.

Þetta kom fram í máli Hörpu Grímsdóttur, deildarstjóra snjóflóða og skriða hjá Veðurstofu Íslands, á velsóttum íbúafundi í Neskaupstað vegna snjóflóðahrinanna sem gengu yfir á Austurlandi í lok mars og fram í byrjun þessa mánaðar.

Fram hefur áður komið að á samráðsfundi snjóflóðasérfræðinga Veðurstofunnar sunnudaginn 26. mars var staðan á Austurlandi, og í Neskaupststað sérstaklega,metin svo að snjóflóðahætta væri sannarlega til staðar en ólíklegt væri að þau myndu ógna byggð. Varð úr að hópurinn hugðist hittast aftur snemma mánudags 27. mars til að rýna nánar í stöðuna á þeim tíma. Sá fundur kom of seint því snjóflóðin féllu á bæinn nokkrum klukkustundum fyrr og ollu töluverðu tjóni.

Þetta einn lærdómur sem ofanflóðafræðingarnir hafa tekið til sín af þeim flóðahrinu sem féllu í Neskaupstað en líkt og einnig hefur komið fram áður voru þau flóðin óvenjuleg á ýmsan hátt.

Hafa fræðingarnir sérstaklega verið að rýna í hvort örlítið breytt vindátt aðfararnótt 27. mars og þar af leiðandi aukin úrkomuákefð á tilteknum svæðum hafi haft áhrif og sömuleiðis hvort óvenju mikið frost í lítill hæð hafi hugsanlega verið orsakavaldur líka. Það er sem sagt ekki aðallega snjómagnið sem getur skipt máli heldur aðrir þættir sem rannsaka þarf betur að sögn Hörpu.

Góðu heilli urðu engin alvarleg slys á fólki í snjóflóðunum í Neskaupstað en eignatjón var töluvert. Mynd Landsbjörg