Meirihlutinn í Fjarðabyggð klofnaði í atkvæðagreiðslu um breytingar á skipulagi fræðslumála

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu starfshóps í fræðslumálum um að sameina skólastofnanir sveitarfélagsins eftir skólastigum. Annar fulltrúa Fjarðalistans, greiddi atkvæði gegn samþykktinni við furðu oddvita samstarfsflokksins og minnihlutans.

Í grófum dráttum felur tillagan í sér að leikskólarnir verða sameinaðir í eina stofnun, grunnskólarnir í aðra og tónlistarskólarnir í þá þriðju. Ráðinn verður fagstjóri fyrir hverja þessara stofnana. Í leik- og grunnskólum verða áfram skólastjórar á hverjum stað en með breytta starfslýsingu. Þeir bera ábyrgð á stjórnun og faglegu starfi skólanna gagnvart yfirstjórn fræðslumála.

Störf aðstoðarskólastjóra verða þó lögð niður og deildarstjóra sérkennslu í grunnskólum. Í leikskólunum verður sérkennslustjóri hvers staðar tengilliður og staðgengill skólastjóra. Í grunnskólunum verður staða verkefnastjóra auglýst og er honum ætlað að vera staðgengill skólastjóra og tengilliður.

Á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði hefur verið rekin sameiginleg skólastofnun fyrir báða staðina með bæði leik- og grunnskóla innanborðs. Skólastigin verða aðskilin eftir hinum nýju stofnunum. Staða skólastjóra verður lögð niður en í staðinn koma deildarstjóri sem fær stuðning frá Fáskrúðsfirði.

Samhliða þessum breytingum á að efla skólaþjónustuna. Ráðið verður í þrjú ný gildi þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og náms- og starfsráðgjafa. Bæjarstjóri hefur yfirumsjón með útfærslu breytinganna, svo sem gerð starfslýsinga, útreikningi stöðugilda og öðru slíku.

Fagstjórar auki faglegt samstarf


Breytingarnar eru gerðar að tillögu starfshóps um fræðslumál sem var skipaður í október. Honum var ætlað að rýna hvernig breyta megi rekstri leik-, grunn- og tónlistarskólanna til að auka rekstrarlega samlegð og bæta faglegt starf. Hópurinn kynnti fyrstu drög sín um miðjan desember en áfangaskýrsla hans var lögð fram í bæjarráði sem trúnaðarmál fyrir tveimur vikum.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, mælti fyrir breytingunum og sagði þær eiga að efla faglegt skólastarf og nýta um leið sem best það fé sem varið er til fræðslumála. Tilkoma fagstjóranna auki faglegt samstarf starfsfólks skólanna, þvert á starfsstöðvar auk sem breytingarnar feli í sér breytta nálgun í að bæta líðan nemenda og starfsfólks.

Gagnrýndi samráðsleysi við starfsfólk og foreldra


Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, annar bæjarfulltrúa Fjarðalistans, greiddi atkvæði gegn tillögunni. Þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu sagðist hún ekki telja breytingarnar til þess fallnar að styrkja skólastarfið í Fjarðabyggð, sérstaklega ekki með að leggja niður aðstoðarskólastjóra í grunnskólum og deildarstjóra stoðþjónustu á hverjum stað. „Um leið og stjórnun í hverjum skóla er veikt er bætt við stöðugildum á skrifstofu Fjarðabyggðar, miðstýrði stjórnun,“ sagði hún.

Hjördís lýsti vonbrigðum með skort á samstarfi við skóla og fagfólk í menntamálum gerð tillögunnar. Þegar farið sé í svo miklar breytingar sé rík samstarf við skólasamfélagið: stjórnendur, starfsfólk og foreldra nauðsynlegt. „Ég óttast að starfsfólk skóla og foreldrar muni upplifa óöryggi þegar tilkynnt verður um þessar miklu breytingar án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við starfsfólki og foreldra.

Ég óttast að hér sé ekki verið að stíga gæfuspor, heldur þvert á móti,“ sagði Hjördís sem endaði á að hvetja aðra bæjarfulltrúa til að fylgja fordæmi sínu um að greiða atkvæði gegn breytingunum en taka upp „alvöru samráð við skólasamfélagið í Fjarðabyggð um eflingu skólastarfs.“

Hélt að þverpólitísk samstaða væri um málið


Birgir Jónsson, úr Framsóknarflokki, var formaður hópsins. Breytingar urðu á starfstímanum en þar áttu í lokin að auki sæti Jón Björn, Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, og Jóhanna Sigfúsdóttir og Ragnar Sigurðsson úr minnihluta Sjálfstæðisflokks.

Ragnar sagði mótatkvæði Hjördísar koma honum á óvart þar sem innan hópsins hefði allan tímann ríkt þverpólitísk samstaða. Ekki hefðu heldur komið fram verulegar athugasemdir í bæjarráði eða hjá þeim bæjarfulltrúum sem kallaðir hefðu verið til og því unnið í þeirri trú að minni- og meirihluti stæðu saman að málinu. „Þetta gerir ekkert annað en veikja og draga úr trúverðugleika þeirrar ákvörðunar sem við erum að taka,“ sagði Ragnar.

Hann sagði hafa verið vandað vel til verka og tillagan væri í samræmi við þá sviðsmynd sem best væri til þess fallin að ná fram þeim markmiðum sem starfshópnum voru sett „að frumkvæði meirihlutans.“ Rangar kvaðst skilja að athugasemdir væru um breytingarnar en það væri verkefni bæjarstjórnar að sýna að þær væru til heilla. „Þetta er bæði rekstrarleg hagræðing en aðalatriðið er að til framtíðar gerum við breytingarnar til að efla faglegt starf í skólunum,“ sagði hann.

Eðlilegt að athugasemdir komi fram


Jón Björn tók undir að afstaða Hjördísar vekti furðu og væri leiðinleg því reynt hefði verið að skapa pólitíska sátt. Hann sagði að síðustu vikur hefði verið unnið hratt en þó gefinn rúmur tími til umræðu. Meðal annars hefði verið rætt við stjórnendur stofnanna. Hann sagði að eðlilega kæmu fram athugasemdir á leiðinni en lýsti um leið fullri trú á að hægt yrði að takast á við þær í innleiðingunni þannig eins víðtæk sátt náist og kostur sé.

Jón Björn sagði það ekki rétta nálgun að tala um að störfum á skrifstofum Fjarðabyggðar væri fjölgað heldur væri að styrkja skólaþjónustuna, hún ætti að fara út í skólana og vinna þverfaglega með þeim. Samstarf skólasamfélagsins væri aukið um leið og hver starfsstöð væri efld. Ákvörðunin ætti að styrkja faglega umhverfið og skapa sóknarfæri.

Hjördís Helga sagði að afstaða hennar ætti ekki að koma meirihlutanum á óvart, hún hefði mótmælt tillögunni mjög opinskátt þar. Hún kysi eftir sinni sannfæringu og ítrekaði að hún hefði viljað sjá samstarf með skólasamfélaginu öllu en ekki bara stjórnendum því breytingarnar snerti bæði starfsfólk og foreldra.

Ragnar bætti því við að afstaða Hjördísar væri trúnaðarbrestur, gagnvart bæði starfshópnum og fræðslumálum í Fjarðabyggð. Upplýsingar um að sjónarmið hennar hafi ekki komist alla leið séu ekki til að auka trú og traust til að starfa með meirihlutanum í starfshópum. „Ég lýsi algjörri furðu á þessum vinnubrögðum.“

Breytingarnar voru að lokum samþykktar með atkvæðum allra bæjarfulltrúa nema Hjördísar. Breytingarnar eiga að taka gildi í ágúst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.