Meirihlutinn með yfirburði í Múlaþingi

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í sveitarstjórn Múlaþings bætir duglega við sig, tveimur fulltrúum, samkvæmt niðurstöðum kosningakönnunar Austurfréttar/Austurgluggans.

Þetta sýna fyrstu útreikningar á niðurstöðum könnunarinnar sem opin var í síðustu viku. Ríflega 250 svör bárust úr Múlaþingi. Aldursdreifing svarenda var ágæt en karlar í talsverðum meirihluta, 58%. Góð þátttaka frá Seyðisfirði en lakari frá Djúpavogi.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með 32,5% sem myndi skila honum fimm fulltrúum en hann á fjóra í dag. Framsóknarflokkurinn bætir einnig við sig, 21,7% og þrjá fulltrúa en á í dag tvo. Austurlistinn fær 17,3% sem eru tveir kjörnir fulltrúar, tapar einum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fær 10,8% og heldur sínum fulltrúa. Miðflokkurinn mælist með 5,6% og tapar sínum fulltrúa.

Þar er þó vert að hafa í huga að þegar spurt er um hvað fólk hafi kosið árið 2020 mælist Miðflokkurinn töluvert lægri en hann fékk í kosningunum en Sjálfstæðisflokkurinn hærri. Út frá því gæti Miðflokkurinn átt fylgi inni á kostnað Sjálfstæðisflokks. Tólf prósent eru óákveðin.

Talsverða hreyfingu þarf þó til að fulltrúarnir fari á hreyfingu. Næsti fulltrúi inn er þriðja sæti Austurlista sem myndi slá út fimmta mann Sjálfstæðisflokks. Til þess þarf Austurlistinn að bæta við sig þremur prósentustigum. Þar á eftir kæmi síðan fulltrúi Miðflokks. Ekki munar þó miklu á þessum breytingum og að Sjálfstæðisflokkurinn komi með hreinan meirihluta út úr könnuninni.

Þegar spurt er hvaða lista væri næst líklegast að fólk kysi eru 25% óviss en síðan eru Framsókn og Austurlisti jöfn með 21,5%, Sjálfstæðisflokkurinn 15,8%, Vinstri græn 10,9% og Miðflokkur 6%.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, sem fer fyrir Sjálfstæðisflokki, mælist með mest traust oddvitanna, 3,37 af 5 mögulegum. Jónína Brynjólfsdóttir frá Framsókn fær 3,22, Hildur Þórisdóttir frá Austurlista 3,03, Helgi Hlynur Ásgrímsson frá VG 2,84 og Þröstur Jónsson Miðflokki 2,2.

Þegar spurt er út í hvaða málefni skipta kjósendur mestu við val á lista fá samgöngumál hæsta einkunn, 4,5 af 5. Húsnæðismál fá 4,4, heilbrigðis- og umönnunarmál 4,39, atvinnumál 4,36 og fólkið á listanum 4,35. Lægstu einkunnina fá menningarmál, 3,44.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.