Skip to main content

„Menningarsjokk að karlar mættu líka vera í fæðingarorlofi“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. okt 2023 11:18Uppfært 27. okt 2023 11:21

Staða kvenna af erlendum uppruna var meðal þess sem rætt var á baráttufundi sem boðað var til á Egilsstöðum í tilefni kvennaverkfalls á þriðjudag. Bent var á að konum af erlendum uppruna mættu ýmsar hindranir en hér væru einnig tryggð réttindi sem ekki þekktust í öllum löndum.


Það voru þær Margaret Johnson, kennari við Menntaskólann á Egilsstöðum og Iryna Boiko, naglafræðingur, sem ræddu stöðu erlendra kvenna og sögðu meðal annars frá eigin reynslu á fundinum.

Margaret vitnaði til rannsókna sem sýndu fram á ýmsar hindranir sem mættu erlendum konum hérlendis. Þær sinntu oft láglaunastörfum sem Íslendingar kærðu sig ekki um og ynnu langan tíma á vöktum. Þeir vinnustaðir séu oft ekki skipaðir Íslendingum.

Þetta þýði að þær eigi erfiðra á allan hátt með að læra tungumálið sem væri stór hindrun, einkum þegar eitthvað bjátaði á, til dæmis ef þær misstu vinnuna. Þessar sömu rannsóknir sýndu einnig fram á að konurnar væru vegna þessa viðkvæmari gagnvart heimilisofbeldi, ef þær ættu íslenska menn þá beittu þeir hótunum á að taka af þeim dvalarleyfi eða börn og þær vissu oft ekki hvert þær gætu leitað aðstoðar.

Margaret, sem er fædd í Ástralíu, sagðist sjálf hafa verið heppin þegar hún flutti til Íslands að koma í sveit þar sem enginn talaði ensku nema maðurinn hennar. Það hefði orðið til þess að hún lærði íslenskuna og komst inn í samfélagið.

Fólkið mitt heppið að vera hér


Iryna lýsti ánægju sinni með íslenskt samfélag. Hún kom fyrst til Borgarfjarðar eystra fyrir 11 árum en hefur síðustu sex ár búið á Egilsstöðum. Hún sagði það hafa verið viðbrigði að flytja í 100 manna þorp en það hafa verið hjálplegt að fólkið talaði íslensku við hana. Hún rifjaði upp að tíma hefði tekið að venjast myrkrinu og hún beðið eftir að veturinn yrði búinn. Annað menningarsjokk hefði síðan verið þegar hún komst að maðurinn hennar gæti líka tekið fæðingarorlof, það þekktist ekki í fæðingarlandi þeirra Úkraínu.

Eftir að Rússland réðst á Úkraínu hefur Iryna aðstoðað landa sína hafa komið austur. Bara á hennar vegum komu sjö einstaklingar til landsins. „Ég var ekki tilbúin að fá svona marga gesti í einu en Íslendingar hjálpuðu mikið. Fólkið mitt fékk föt, mat, pening og börnin leikföng.“

Hún sagði mesta átakið hafa verið að fá atvinnuleyfi, það tók níu vikur en eftir það hefði fullorðna fólkið fengið vinnu. „Fólkið mitt er heppið að vera hér. Við erum mjög þakklát fyrir að vera á Íslandi því Íslendingar tóku vel á móti okkur.“

Grét vegna þeirra sem ekki geta fengið sömu þjónustu


Þriðji einstaklingurinn af erlendum uppruna var Ra Tack, kvár, búsett á Seyðisfirði en fætt í Belgíu. Hán sagði meðal annars frá reynslu sinni af að fara í gegnum brjóstnám. „Ég man þegar ég stóð framan við spegilinn og tók plástrana af. Ég grét yfir að sjá breytingarnar, að sjá líkama sem ég tengdi við og vegna þeirra sem geta ekki farið í sambærilegar aðgerðir. Þetta var eins og að koma heim í eigið rúm eftir að hafa verið lengi í burtu,“ sagðist Ra Tack og bætti við að samfélagið á Seyðisfirði hefði alltaf verið hán skilningsríkt.