Menntaskólinn á Egilsstöðum stofnun ársins

Menntaskólinn á Egilsstöðum fékk hæstu einkunnina í flokki ríkisstofnana með 40-89 starfsmenn í könnum Sameykis á starfsánægju og þar með nafnbótina Stofnun ársins. Skólameistari segir niðurstöðuna endurspegla andann í skólanum.

Könnunin er gerð árlega meðal um 31.000 félagsmanna stéttarfélagsins Sameykis. Lokaeinkunn stofnana er síðan samansett úr nokkrum þáttum meðal annars ánægju með ímynd, laun, stjórnun, jafnrétti og sveigjanleika í starfi.

Stofnunum er skipt í þrennt eftir stærð og er ME meðal þriggja stofnana sem fær aðalverðlaunin, en skólinn fékk hæstu einkunn, 4,52 í flokki meðalstórra stofnana sem skilar honum í sjöunda sætið í heildarlistanum.

Skólinn fékk 4,59 í stjórnun, 4,61 í starfsanda, 4 í launakjör, 4,52 í vinnuskilyrði, 4,29 í sveigjanleika, 4,53 í sjálfræði, 4,64 í ímynd, 4,74 í ánægju og stolt og loks 4,57 í jafnrétti. Þótt skólinn fái lægst fyrir laun er hann samt meðal þeirra stofanna sem fá þar hæstu einkunnina auk þess sem hann kemur vel hvað varðar ímynd og stolt.

Jákvæður skólabragur

Árni Ólason, skólameistari, er að vonum ánægður með niðurstöðuna sem hann segir endurspeglar andann í skólanum. „Hér er jákvætt andrúmsloft, bæði á kaffistofunni og gagnvart nemendum sem skilar sér til baka í mjög jákvæðum skólabrag,“ segir hann.

„Starfsfólk er glaðlynt, hreinskiptið og lausnamið. Við reynum að leysa málin áður en þau vinda upp á sig. Við vinnum árlega eftir úrbótaáætlun þar sem við tökum púlsinn á fólki og skipuleggjum síðan vinnu til að bæta úr. Boðleiðir eru stuttar og við reynum að bregðast við strax.

Við getum nefnt að hér hefur verið gert ýmislegt síðustu ár varðandi aðstöðu. Þegar við greindum óánægju með stólana voru keypt stillanleg skrifborð sem varð til þess að hætt var að tala um stólana, samhliða því sem líkamleg heilsa hefur batnað.

Kjarasamningar innan skólans hafa gengið vel þannig við erum vel sett í launum miðað við marga skóla. Tækjakostur er góður og kennarar ráða miklu um það sem þeir gera. Síðan er hér öflugt kennarafélag sem sér um að létta lundina. Meðan svona er þá er alltaf skemmtilegt að koma í vinnuna.“

Óhrædd við að breyta

Árni bendir sérstaklega á að starfsfólk hafi verið jákvætt gagnvart breytingum innan skólans. Það er farið að vekja athygli langt út fyrir hann. „Við höfum oft verið beðin um að kynna spannakerfið, sem við tókum upp fyrir tíu árum. Nú hyllir undir að fleiri taki það upp.

Við hreyfum okkur hratt í átt að taka það upp sem virkar. Við erum ekki ákvarðanafælin og ef ákvarðanir reynast rangar þá tökum við nýjar. Fjarnámið hefur gert mikið fyrir skólann og kennarar hafa gott sjálfstraust gagnvart tækninni. Við gætum ekki haldið úti fjarnáminu ef kennararnir væru ekki lausnamiðaðir.“

Viðurkenning á því sem vel er gert

Árni segir árangurinn nú vera afurð af nokkurra ára vinnu, en ME hefur mælst ofarlega í könnunum Sameykis síðustu ár. „Það jákvæða nú er afurð af því sem gert hefur verið. Þetta er langhlaup sem kemur heim og saman í viðurkenningum, sem eru aukaafurðir.

Við höfum aldrei spáð sérstaklega í þessum könnunum, að öðru leyti en við höfum skipulega reynt að útrýma því sem fer í taugarnar á fólki. Ég held að þessi viðurkenning auki starfsánægjuna því hún gerir fólk meðvitaðra um að við séum að gera rétt og það er gaman að tilheyra slíkri stofnun.“

Skógræktin fyrirmyndarstofnun

Af öðrum stofnunum sem eru áberandi á Austurlandi í könnun Sameykis er vert að nefna að Skógræktin fékk einnig viðurkenningu sem fyrirmyndarstofnun en hún varð í fimma sæti með einkunnina 4,31 í sama flokki og ME.

Verkmenntaskóli Austurlands fékk 4,18 í einkunn, Vatnajökulsþjóðgarður 4,12, Heilbrigðisstofnun Austurlands 3,9 og Lögreglan á Austurlandi 3,89. Í tilfelli HSA og lögreglunnar eru þær á svipuðum stað og aðrar stofnanir á sviði heilbrigðisþjónustu og löggæslu á landsvísu. Óánægja með laun virðist helst draga þær stofnanir niður.

Embætti sýslumannsins á Austurlandi er í sjöunda neðsta sæti heildarlistans með einkunnina 3,56. Þó eru tvö önnur sýslumannembætti, annars vegar á Vestfjörðum, hins vegar á höfuðborgarsvæðinu, þar fyrir neðan.

Margaret Anne Johnson, enskukennari, tók við viðurkenningunni fyrir hönd ME. Mynd: ME

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.