Mest rætt um hvernig hægt er að breyta menningu og viðhorfi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. apr 2023 11:35 • Uppfært 28. apr 2023 11:37
Fimmti fundurinn í fundaröð forsætisráðherra um sjálfbæra þróun á Íslandi fór fram á Egilsstöðum á miðvikudag. Ráðherra segist mest hafa verið rætt um hvernig hægt sé að breyta viðhorfi fólks. Skólameistari Hallormsstaðarskóla benti á að við værum alltaf að breyta hegðun okkar og nefndi að fólk leyfði sér ekki lengur að henda rusli í bæjarlækinn.
Fundaröðin er hluti af verkefninu sjálfbært Ísland sem snýst um að móta stefnu hérlendis um sjálfbæra þróun. „Mætingin hefur alls staðar verið frábær sem er gleðilegt því þetta er ekki hitamál heldur flókið viðfangsefni.
Við vonumst að þessir fundir veiti okkur innblástur í stefnumótun um sjálfbært Ísland, bæði til að við náum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en líka við stefnumótun innanlands,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í samtali við Austurfrétt.
Fundurinn á Egilsstöðum var fjölsóttur, áberandi voru fulltrúar úr sveitarstjórnum en þar var einnig fólk frá stofnunum, fyrirtækjum, félagasamtökum og með áhuga á málaflokknum. „Sveitarstjórnarfólk hefur hlutverk í þessum málum sem snúast mikið um nærsamfélagið og hringrásina í því.“
Katrín segir nokkurn mun eftir landssvæðum um hvað sé rætt. „Það hefur áhrif hvort við erum í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu eða stóru landbúnaðarhéraði. Fólk talar um lög, reglur og fjármagn en mest um menningu og viðhorf, hvernig við breytum hegðun okkar þannig við förum að tileinka okkur hringrásarhagkerfið.“
Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðarskóla, var meðal framsögumanna á fundinum. Hún benti á að oft sæjum við ekki heildarmyndina og tók dæmi af sveppum sem að stærstum hluta eru undir yfirborði jarðar sem flókið net. Þeir fela í sér ýmsa möguleika svo sem að brjóta niður eiturefni eða borða plast.
Bryndís benti einnig á að mannfólkið væri alltaf að læra og breyta hegðun sinni. Á skrifstofu hennar í skólanum hangir mynd frá árinu 1961 þar sem nemendur skólans eru að henda ruslinu í bæjarlækinn. „Í dag myndi enginn nemandi henda ruslinu út í náttúruna.“
Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun hjá HÍ, talaði einnig um hugtakið sjálfbærni sem hún minnti á að í grunninn snérist ekki bara um umhverfi eða efnahag heldur samfélag, til dæmis heilsu og vegferð. Grunnurinn væri þó að efnahagsleg velferð gæti ekki farið út fyrir takmörk náttúrunnar.
Allir ráðherrar ríkisstjórnar auk fulltrúa frá fyrirtækjum og félagasamtökum sitja í sjálfbærniráði sem vinnur málið áfram. Stefnt er á að ráðið skili fyrstu tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar þann 1. desember.