Mestu verðmæti úr einum túr í sögu Síldarvinnslunnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. apr 2022 13:10 • Uppfært 06. apr 2022 13:25
Fjörutíu daga veiðiferð frystitogarans Blængs NK í Barentshafinu reyndist mikill happatúr þegar skipið kom til hafnar í Neskaupstað á þriðjudag en verðmæti aflans reyndist vera 635 milljónir króna (CIF.)
Þetta eru mestu verðmæti sem eitt skip Síldarvinnslunnar hefur komið með að landi úr einum túr að því er fram kemur á vef fyrirtækisins en aflinn var alls 1175 tonn og að mestu þorskur.
Veitt var í norskri lögsögu í túrnum á svæðum sem kallast Fuglabanki og síðar við Nysleppen, Liksnagan og Bjarnarey.
Sjálfur segir skipstjórinn, Hörður Kristjánsson, að veiðin hafi í raun ekki verið svo frábær en sökum mikilla hækkana á fiskafurðum á mörkuðum reyndist aflaverðmætið jafn mikið og raun ber vitni.