Skip to main content

Meta kosti uppbyggingar nýrrar gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. jan 2024 15:16Uppfært 23. jan 2024 19:14

Svæðisráð austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs ályktaði nýverið um nauðsyn þess að koma þjóðgarðinum og dásemdum hans betur á framfæri við gesti og ferðamenn á Austurlandi. Nú hefur byggðaráð Múlaþings samþykkt að láta leggja mat á kosti þess að ráðist verði í hugsanlega uppbyggingu gesta- og upplýsingastofu á Egilsstöðum.

Þetta var samþykkt samhljóða á fundi byggðaráðs í dag en þar var atvinnu- og menningarmálastjóra falið að kanna málið til hlítar. Málið verður aftur tekið fyrir að þeirri athugun lokinni.

Austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs státar nú þegar af upplýsingamiðstöðinni Snæfellsstofu í Fljótsdal sem er sótt af flestum þeim ferðamönnum sem þangað halda. En betur má ef duga skal að mati svæðisráðs en ábendingar um að betur megi koma þessum hluta þjóðgarðsins á framfæri en nú er hafa einnig komið annars staðar frá. Upplýsingamiðstöð eða gestastofa á Egilsstöðum, þar sem stærstur hluti ferðafólks á Austurlandi fer í gegn, gæti aukið sýnileika þessa merka svæðis umfram það sem nú gerist.

Snæfellsstofu í Fljótsdal sækir töluverður fjöldi ferðamanna ár hvert. Önnur slík gestastofa til í þéttbýlinu á Egilsstöðum gæti þó aukið til muna sýnileika austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.