Skip to main content

Metlöndun hjá Loðnuvinnslunni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. maí 2025 14:21Uppfært 05. maí 2025 14:24

Færeyska uppsjávarskipið Gøtunes landaði um helgina stærsta farmi sem eitt skip hefur landað hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Kolmunnavertíðin hefur gengið vel þar en skip félagsins, Hoffell, lauk veiðum fyrir helgina.


Gøtunes kom til Fáskrúðsfjarðar um hádegi með 3.606 tonn af kolmunna. Í frétt á vef Loðnuvinnslunnar segir að skipverjar hafi fagnað hverju kíló í lokin enda ljóst að met væri í höfn, bæði á Fáskrúðsfirði sem hjá skipinu sjálfu. Lönduninni lauk um miðnætti í gær.

Fiskurinn mun hafa verið ágætur en er þó heldur farinn að horast. Kolmunnaveiðiskipin hafa helst verið að veiðum austur af Færeyjum síðustu daga.

Besti apríl Hoffells


Baldur M. Einarsson, útgerðarstjóri Loðnuvinnslunnar, segir vertíðina hafa verið góða. Verð á mjöli hafi verið ágætt þótt lýsisverð sé aðeins fari að gefa eftir. „Bræðslan hefur verið stöðugt í gangi hjá okkur,“ segir hann í samtali við Austurfrétt.

Loðnuvinnslan gerir út uppsjávarveiðiskipið Hoffell sem í fjórum ferðum í apríl veiddi 8.600 tonn. Á heimasíðu Loðnuvinnslunnar er haft eftir Sigurði Bjarnasyni skipstjóra að aprílmánuður hafi aldrei verið jafn góður hjá skipinu.

Um 50.000 tonn frá erlendum skipum


Að auki hefur Loðnuvinnslan tekið á móti um 50.000 tonnum frá erlendum skipum og þangað eru samanlagt komin um 57.000 tonn af kolmunna.

Eftir því sem næst verður komist er þetta stærsti kolmunnafarmur sem landað hefur verið hérlendis á þessari vertíð. Hann heggur nærri því sem talinn hefur verið stærsti kolmunnafarmi sögunnar, 3.653 tonn úr færeyska uppsjávarveiðiskipinu Christian í Grótinum hjá Eskju í fyrra.

Hoffellið fer væntanlega ekki til veiða á ný fyrr en í lok júní þegar makrílvertíðin hefst. Baldur segir að framhald uppsjávarvinnslu hjá Loðnuvinnslunni eigi eftir að skýrast, flest íslensku skipin séu flest hætt veiðum að sinni en enn séu færeysk skip að og eitt og eitt af þeim geti komið til Fáskrúðsfjarðar.

Gøtunes á leið til Fáskrúðsfjarðar. Mynd: Jónína G. Óskarsdóttir