Skip to main content

Miðbærinn á Vopnafirði efldur sem hjarta byggðarinnar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. júl 2023 16:05Uppfært 07. júl 2023 16:19

Umfangsmikil vinna stendur nú yfir við skipulag Vopnafjarðar sem breytt gætu ásýnd bæjarins á næstu árum, gangi þær hugmyndir sem uppi eru eftir. Markmiðið er að efla miðbæinn sem hjarta byggðarinnar, gera gömlum húsum hærra undir höfði og auka frambúð íbúðalóða.


Þrennt kemur til. Vinna við Verndarsvæði í byggð er lengst komin. Á Vopnafirði hefur verið unnið að því verkefni frá árinu 2016. Afmarkað hefur verið svæði sem nær gróflega frá Kolbeinsgötu niður að hafnarsvæði.

Um er að ræða elsta hluta byggðarinnar þar sem húsin þar yrðu gerð sýnilegri gestum og ferðafólki í framtíðinni. Helstu einkenni þessa svæðis er fallegt bæjarstæðið, þyrping húsa í miklum landhalla og safn húsa frá blómaskeiðum sveitarfélagsins, auk samfelldrar byggingarlínu húsa við Kolbeinsgötuna. Þar með yrðu einar tólf merkar byggingar friðaðar og meðal þeirra má nefna Baldursheim, Kaupvang, Vopnafjarðarkirkju, Sjónarhól og Sláturhúsið.

Verið er að vinna deiliskipulag fyrri Holtahverfi og Skálaneshverfi. Þar er töluvert af auðum lóðum á milli húsa sem þykir ekki gott fyrir götumyndina. Næsta skref er að ákveða byggingamagn á hverri lóð. Einnig er til skoðunar óbyggt mýrarsvæði við Kolbeinsgötu, gegnt söluskálanum Öldunni. Hugmyndir eru annars um að byggja þar íbúðir, hins vegar að búa til almenningsgarð.

Umfangsmestu breytingarnar felast í endurnýjun miðbæjarsvæðisins, sérstaklega svæðið í kringum hið fornfræga hús Kaupvang. Samkvæmt fyrstu tillögum eiga fjórar byggingar að rísa gegnt Kaupvangi. Hlutverk þeirra er ekki enn ljóst en hugað er að því að einyrkjar eða fyrirtæki geti komið sér upp aðstöðu þar. Þannig yrði til þjónustukjarni fyrir heimafólk og ferðamenn. Svæðinu milli húsanna og Kaupvangs yrðu um leið breytt í miðbæjartorg.

Enn er þó nokkuð í að þessar áætlanir verði að veruleika, einkum hvað varðar miðbæinn, en Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, bendir á að skipulagið sé alltaf fyrsta skrefið. Þá sé mikilvægt fyrir hreppinn að eiga tilbúnar lóðir fyrir fólk sem vill byggja þar.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.