Miðlæg varmadæla talin hagkvæmasta lausnin fyrir Seyðisfjörð

Áframhaldandi rekstur fjarvarmaveitukerfisins á Seyðisfirði, þó með tilkomu miðlægrar varmadælu, er talinn hagkvæmasti kosturinn til framtíðar fyrir húshitun á staðnum.

Þetta er niðurstaða starfshóps sem skilaði greinargerð sinni til sveitarfélagsins Múlaþings í byrjun júní eftir um hálfs árs vinnu. Í honum áttu fulltrúar frá Rarik, HEF Veitum, heimastjórn Seyðisfjarðar og sveitarfélaginu en verkfræðistofan EFLA vann lokaskýrsluna.

Ráðist var í vinnuna í framhaldi af áformum Rarik, sem rekið hefur fjarvarmaveituna frá árinu 1981. Árið 2017 tilkynnti fyrirtækið að henni yrði lokað fyrir árslok 2019 þar sem tími væri kominn á verulega endurnýjun og rekstrarforsendur þar með brostnar. Rarik mælti þá með að íbúar kæmu sér upp varmadælum í hvert og hús og lofaði þeim styrk en sagði verkefnið annars á ábyrgð húseigenda. Lokuninni var frestað eftir mótmæli.

Ástand núverandi kerfis var meðal þess sem starfshópurinn skoðaði. Niðurstaðan er að það sé vel nothæft en þarfnist töluverða endurbóta því í því er talsverð tæring. Orkutap er mikið, munurinn milli framleiddrar og seldar orku er 27%. Ástandið er samt ekki talið verra en á sambærilegum kerfum. Endurnýjun kerfisins svo vel séð er talin kosta 560-630 milljónir en dreifa má kostnaðinum á 20-30 ár.

Loft í vatn besti kosturinn


Starfshópurinn greindi nokkra kosti til að sinna húshitun Seyðisfjarðar til framtíðar: Tvær gerðir af miðlægum varmadælum; aðra sem nýti sjó, hina sem nýti loft, heitavatnslögn frá Héraði um væntanleg Fjarðarheiðargöng og miðlæga kyndistöð frá Tandraorku á Eskifirði sem nýtir viðarperlur. Þá var einnig greind hugmyndin sem Rarik lagði fram fyrir sex árum um varmadælur eða rafhitakatla í hvert hús.

Af þessum kostum var miðlæg varmadæla sem nýtir varma úr lofti til að hita vatn talin hagstæðust og miðað við forsendur um niðurgreiðslur gæti húshitunarkostnaður Seyðfirðinga lækkað lítillega. Þá er hún talin geta sparað ríkissjóði 35 milljónir króna í niðurgreiðslur á ári en skilað því 15-20 milljónir í auknar tekjur þegar hægt er að selja orku annað sem sparast með varmadælunni því orkunotkun kerfisins er talin minnka úr 16,3 GWst/ári í 5,5 GWst. Þá er það talið jákvætt að hægt sé að koma þessum kosti í notkun á innan við tveimur árum.

Starfshópurinn hvetur til þess að kannaðir verði nánar kostirnir við að nota viðarkyndistöð til að styðja við varmadæluna á álagstímum. Það gæti lækkað orkuverðið enn frekar. Viðarkyndistöðin ein og sér er hins vegar talin of dýr.

Of mikil óvissa um hitaveitu


Hitaveitan frá Héraði gæti orðið neytendum hvað hagstæðum en hún fellur á öðrum þáttum. Í fyrsta lagi þýðir löng leið mikið orkutap auk þess sem óvissa er á framboð á heitu vatni á Héraði til lengri tíma litið. Þar er verið að leita eftir meiru. Þá er framkvæmdatíminn áætlaður 7-10 ár.

Varmadælur í hvert hús er hagstæðasti kosturinn fyrir raforkunotendur, sé aðeins horft á orkukostnaðinn. Það þýðir hins vegar að notendur bæru sjálfir ábyrgð á hitakerfi húsa sinna. Þeim fylgir líka hávaði auk þess sem þær þykja lýti á húsum. Erfitt yrði að láta framkvæmdina ganga upp á sem stystum tíma, framkvæmdatíminn yrði alltaf 2-3 ár.

Einhver niður fylgir líka miðlægri varmadælu, en með henni yrði sloppið við framkvæmdir við nánast hvert einasta hús á Seyðisfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.