Skip to main content

Mikið tilhlökkunarefni að koma Ars Longa í viðunandi horf

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. okt 2023 12:29Uppfært 23. okt 2023 12:37

Forsvarsmenn listasafnsins Ars Longa á Djúpavogi leita nú fjármagns til að færa hið gamla Vogshús til betri vegar til framtíðar og ríkir bjartsýni á að það muni ganga vel að sögn Þórs Vigfússonar.

Heimastjórn Djúpavogs sendi forsvarsmönnum safnsins bréf fyrir nokkru þar sem ítrekað var kall var eftir endurbótum á húsnæðinu samkvæmt samningi þar að lútandi. Safnhúsið, sem er gamalt fiskvinnsluhús í utanverðum voginum, hefur mjög látið á sjá gegnum tíðina og þykir sumum lýti í fallegu landslaginu.

Aðspurður segir Þór að verið sé að leita aðila sem áhuga hafa á að koma að málinu og koma húsnæðinu til nútímalegt horf en meðfylgjandi teikning er ein þeirra hugmynda sem menn hafa um útlit hússins þegar þar að kemur.

„Ég varð nú dálítið hissa á þessu bréfi heimastjórnar satt best að segja. Samningurinn kveður á um að við höfum fimm ár til að vinna að endubótum húsnæðisins og aðeins rétt eitt og hálft ár liðið frá því sá samningur var undirritaður. Vissulega er orðið brýnt að fara að sinna viðhaldi og við meðvitaðir um það. Helst er það þakið sem þarf að fara að festa betur niður og lagfæra sem fyrst. En þetta fyrsta eina og hálfa ár hefur að mestu farið í að uppbyggingu safnsins sjálfs, dagskrárgerð og sýningarhald og það skilað góðum árangri þessi tvö síðustu sumrin. Ástand hússins hamlar auðvitað starfseminni töluvert og því brýnt að bæta þar úr og tilhlökkunarefni að það verk hefjist sem fyrst og að því er unnið.“ 

Listasafnið Ars Longa hefur þegar dregið nokkurn fjölda fólks á þær sýningar sem þar hafa verið þau tvö sumur sem safnið hefur starfað og mun gera áfram ef útlit hússins verður í líkingu við hugmyndir sem teiknaðar hafa verið eins og sést á myndinni. Teikning Ars Longa