Mikið tjón á Vattarnesi eftir óveðrið

Um tíma eldsnemma í gær óttaðist bóndinn á Vattarnesi að fjárstofn hans nánast í heild gæti verið allur þegar vindstrengur kippti nánast öllu þakinu af fjárhúsi hans á bænum í óveðrinu sem yfir gekk í allan gærdag.

Þegar til kom reyndist staðan betri en svo en þó þurfti að aflífa þrjár af um 180 kindum sem voru í fjárhúsi bóndans, Óðins Loga Þórissonar, þegar til kom. Hlutu þær svo mikil meiðsl meðan ósköpin gengu yfir að ekki var annað fært. Sökum vindstyrks var ekkert hægt að gera þeim til hjálpar langt fram eftir degi í gær.

Vel má sjá á meðfylgjandi mynd hversu illa fjárhúsið er farið eftir ofsaveðrið en vindstrengirnir á Vattarnesi náðu 54 metrum allnokkrum sinnum samkvæmt mælum Veðurstofu Íslands.

Fjölmargir hafa rétt Óðni og fjölskyldu hans hjálparhönd það sem af er degi og þar bæði vinir og nágrannar, björgunarsveitarfólk og fleiri sem hafa jafnvel komið langt að. Skemmdirnar á staðnum einskorðuðust ekki við fjárhús bæjarins heldur urðu skemmdir á sjóhúsi fjölskyldunnar við ströndina og leki kom að þremur herbergjum í íbúðarhúsinu á staðnum.

Nokkuð hefur blásið um nesið þennan daginn líka en vel hefur engu að síður gengið að fyrirbyggja frekara tjón og lágmarka skaðann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.