Mikið tjón Kjörbúðarinnar á Seyðisfirði vegna vatnslokunar í gærkvöldi

Þó að endurnýjun á vatnsstofnlögn Seyðfirðinga sem framkvæmd var í gærkvöldi og nótt hafi gengið eins vel og vonast var til var ekki hið sama að segja í Kjörbúðinni á staðnum. Þar slógu allir kælar út þegar líða fór á kvöldið og lítið sem í þeim var söluhæft í kjölfarið.

Það var HEF-veitur sem stóð að endurnýjun lagnarinnar en vegna þess var þörf á að loka fyrir allt vatn í firðinum frá klukkan 20 í gærkvöldi fram til verkloka klukkan 3 í nótt. Þrátt fyrir að hafa gert ráðstafanir vegna þessa fóru kælar verslunarinnar að drepa á sér einn af öðrum frameftir kvöldinu í kjölfarið og varð lítið við ráðið.

Verslunarstjórinn, Harry Caunter, hefur í dag boðið bæjarbúum að hirða mjólk, kjöt og ýmsa aðra vöru úr kælunum enda alls óljóst hvort vörurnar margar séu í söluhæfu ástandi eftir svo langan tíma án kælingar.

„Það hefur töluverður fjöldi fólks nýtt sér það og þar nokkrir sem komið hafa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Það er ekki verjandi að selja þessar vörur eftir svo langan tíma án kælingar og því ákváðum við að gefa þær eða henda eftir atvikum. Fólk verður svo að gera upp við sjálft sig hvort þær séu neysluhæfar. Það sem gerir þetta enn verra er að við vorum bara í gærdag að fá sendingu af fersku kjöti og fleiru þannig að stór hluti þessara vara var svo til nýr.“

Það var seint í gærkvöldi sem Harry bárust tilkynningar frá sérstökum vaktmanni sem fjarfylgist með kælibúnaði verslana Samkaupa að kælarnir hefðu dottið út en þeir allir vatnskældir og því fátt sem ekkert að gera til bjargar.

Aðspurður um hvort tekist hafi að útvega þessari einu matvöruverslun bæjarins nýrri mjólk eða kjötvörum í staðinn segir Harry að vagnar af mjólk hafi komið frá Nettó á Egilsstöðum og eitthvað aukreitis með.

„Það mun þó taka einhverja daga að endurnýja allt það sem fór og hugsanlega einhver vöruskortur fram í næstu viku. Það sem verra er er að sumir kælarnir sem settir voru í gang í kjölfarið í nótt eru að gefa frá sér undarleg hljóð þannig að það er ekki útilokað að það verði meira um bilanir í framhaldinu.“

Mynd tekin í morgun af einum af kælum Kjörbúðarinnar. Heita má að öllu í þeim hafi þurft að henda eða gefa nema eggjum og harðfiski. Mynd Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.