Mikil afföll á fuglum eftir hretið í júní

Vísbendingar eru um að mikil afföll hafi verið á fuglum á Austurlandi í óveðrinu sem gekk yfir fjórðunginn í byrjun júní. Þar sem verst lætur virðist um helmingur varps hafa misfarist.

„Við erum ekki búin að taka saman allar talningar en við sjáum og heyrum ýmislegt. Við höfum líka beinar mælingar á heiðagæsum,“ segir Hálfdán Helgi Helgason, fuglavistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.

Starfsmenn Náttúrustofunnar fóru nokkrum dögum eftir hretið upp á Vesturöræfi í árlega talningu á stöðu heiðargæsarinnar, sem þó tafðist vegna hretsins. „Við sáum afskaplega lítið af fjölskyldum. Þær sem við sáum voru flestar með nýklakta unga.

Þau hreiður sem eru á þeim stöðum sem við tökum sniðin hefur fækkað um 47%. Tilfinningin er að þeir ungar sem klakist höfðu út fyrir hretið hafi drepist,“ segir Hálfdán.

Hann bendir þó á að fyrirvari sé á þessum fullyrðingum. Til dæmis hafi snjóað mikið um páskana og vorað seint sem kunni að valda því að hreiður séu annars staðar, eða lægra, en vanalega. Júníhretið sé þó augljósasta skýringin.

Þess vegna er áframhaldandi gagnsöfnun mikilvæg og liður í henni eru athuganir á vængjum af gæsum sem eru veiddar. „Við eigum mælingar á aldurshlutföllum í afla. Þess vegna hvetjum við veiðimenn til að skila inn öllum gæsavængjum í haust, hvort sem er af grágæs eða heiðagæs. Við höfum alltaf varann á okkur með það sem við sjáum en vængjasöfnunin hefur verið svipuð ár eftir ár. Þess vegna ættum að að sjá vísbendingar um breytta samsetningu í aldri.“

Hret á viðkvæmasta tímapunkti fyrir æðarfuglinn


Ekki liggja fyrir tölur um mófugla enn en Hálfdán segir vísbendingar að mikil afföll hafi einnig orðið á þeim. Til dæmis sjáist lítið af heiðlóu. Áhrifin eigi þó enn eftir að koma í ljós, til dæmis sé mögulegt að einhverjir fuglar verpi aftur hafi fyrsta tilraun þeirra misfarist.

Æðarbændur á Austurlandi hafa sagt mikið tjón hafa orðið á þeirra stofnum og Hálfdán bætir við að Náttúrustofunni hafi borist upplýsingar um dauðar kríur eftir hretið.

Hálfdán bendir á að Austurlandi hafi almennt sloppið betur úr bylnum en Norðurland en það breyti því ekki að veðrið hafi komið á versta tíma fyrir fuglategundir sem alla jafna séu harðgerðar, eins og æðarfuglinn.

„Þetta var mikið hret sem kom á vondum tíma þegar ungarnir eru að klekjast út. Æðarfuglinn er til dæmis harðgerður fugl en á þessum tíma liggur kollan mjög stíft á eggjunum. Á meðan nærist hún nánast ekkert sem gerir hana máttfarnari og viðkvæmari fyrir skellum eins og þessum. Síðan eru nýklaktir ungar margir hverjir illa einangraðir eða ekki komnir með fulla líffærastarfsemi til að geta haldið á sér hita.

Svona hret er vont fyrir nýklakta unga en jafnvel enn verra fyrir þá sem eru komnir aðeins á stjá. Þetta var mikið hvassviðri með kulda og síðan blautum snjó sem klessist í fiðrið. Við þekkjum að rigningar í svona kulda geta valdið skaða.“

Aðrar tegundir kunna þó að hafa sloppið betur. Lundinn grefur sig til dæmis í holu og er því í skjóli. „Við höfum engar fregnir af áhrifum á hann.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.