Skip to main content

Mikil fjölgun gistinátta á Austurlandi milli ára í apríl

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. maí 2022 09:31Uppfært 31. maí 2022 10:38

Rétt tæplega sex þúsund gistinætur voru skráðar á Austurlandi í liðnum aprílmánuði samkvæmt Hagstofu Íslands sem reynist vera, hvorki meira né minna, en 792% aukning milli ára.

Nýir ferðavísar Hagstofunnar voru kynntir í morgun og hafi einhver efast um að ferðaþjónustan er að ná vopnum sínum á nýjan leik eftir mögur ár ætti sá lestur að eyða þeim vafa. Samtals gistinætur í landinu öllu í aprílmánuði þetta árið fjölgaði fimmfalt frá aprílmánuði 2021 og það í mánuði sem ekki þykir sérstaklega merkilegur ferðamannamánuður.

Mest hlutfallsleg fjölgun átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu eða 822% aukning milli ára en þar á eftir reynist fjölgunin mest austanlands þar sem hún var 792%. Í apríl fyrir ári voru þannig skráðar 664 gistinætur á Austurlandi öllu en nýliðnum apríl reyndust þær næturnar 5.926 talsins.

Þrátt fyrir hlutfallsaukninguna þá stendur fjöldi ferðafólks sem gistir hér austanlands öðrum landshlutum langt að baki. Það má glögglegast sjá þegar litið er til heildarfjöldi gistinátta í landinu í aprílmánuði sem voru alls 297.284. Hlutur Austurlands því rétt rúmlega tvö prósent alls.

Erlendir ferðamenn við Hengifoss. Aðeins tvö prósent ferðafólks í aprílmánuði dvaldi sólarhring eða lengur á hóteli eða gististað austanlands. Mynd GG